Annað kvöld beinist kastljós fjölmiðlanna að þeim Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, og Kamölu Harris, varaforsetaefni Demókrataflokksins, sem munu takast á í kappræðum í Salt Lake City í Utah. Vanalega er minni áhugi á kappræðum varaforsetaefnanna en í ljósi frétta af Covid-veikindum Trumps Bandaríkjaforseta og aldurs frambjóðendanna hefur áhuginn aukist talsvert.
Pence og Harris eru sögð þurfa að sýna fram á að þau geti tekið hratt við forsetakeflinu ef þörf krefur. Trump, sem er 74 ára gamall, greindist nýverið með kórónuveiruna. Hann hefur snúið aftur til starfa í Hvíta húsinu í Washington en er enn undir eftirliti lækna og hlýtur viðeigandi meðferð.
Því hefur verið haldið fram að Joe Biden, sem er 77 ára gamall, muni ekki sitja tvö kjörtímabil verði hann kosinn forseti í kosningunum sem fara fram 3. nóvember, heldur sé ætlunin að Harris taki við af honum.
„Það er núna mun meira í húfi í þessum kappræðum,“ segir Aaron Kall hjá Michigan-háskóla í Ann Arbor í samtali við The Guardian. Hann bendir á að vanalega sé mun minni áhugi á kappræðum varaforsetaefnanna og þær hafi alla jafna mjög lítil áhrif á niðurstöður kosninganna. Hann bendir á að árið 2016 hafi aðeins 37 milljónir Bandaríkjamanna horft á kappræður varaforsetaefnanna, sem er mun minna en horft var á kappræður forsetaframbjóðendanna sama ár. Varaforsetaefnin eigast aðeins einu sinni við í sjónvarpssal en forsetaframbjóðendurnir í þrígang.
Kall segir að í ljósi þess sem hafi gerst hjá Trump Bandaríkjaforseta sé meira í húfi í umræðunum sem fara fram annað kvöld út frá heilsufari frambjóðendanna, en sem fyrr segir er Trump 74 ára og Biden 77 ára. Kall segir að þau Pence og Harris „þurfi að vera reiðubúin að stíga inn með mjög skömmum fyrirvara“.
Trump, sem yfirgaf í gærkvöldi sjúkrahúsið sem hann hafði verið á, mætti Biden í kappræðum í síðustu viku og það stendur til að þeir mætist tvisvar í viðbót fyrir framan sjónvarpsvélarnar. Eins og staðan er núna er alls óvíst hvort það tekst, enda innan við mánuður til kosninga og mikil óvissa ríkjandi í ljósi veikinda Trumps og kórónuveirufaraldursins.
„Þetta gætu verið síðustu kappræðurnar í þessu ferli og þar af leiðandi önnur ástæða fyrir því að þær skipta enn meira máli en ella,“ sagði Kall ennfremur.