Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að fyrirhugaðar kappræður við Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins, fari fram þrátt fyrir að hafa smitast af kórónuveirunni á dögunum.
„Ég hlakka til kappræðnanna fimmtudagskvöldið 15. október í Miami. Þær verða frábærar,“ tísti Trump.
Bætti hann því við að sér liði frábærlega.
I am looking forward to the debate on the evening of Thursday, October 15th in Miami. It will be great!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 6, 2020
FEELING GREAT!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 6, 2020
Trump var útskrifaður af sjúkrahúsi í gærkvöldi eftir að hafa dvalið þar í þrjár nætur. Nokkrir starfsmenn Hvíta hússins og aðstoðarfólk forsetans hafa greinst með kórónuveiruna undanfarna daga. Alls hafa 7,4 milljónir Bandaríkjamanna greinst með COVID-19 og 210 þúsund látist af völdum sjúkdómsins.
Stjórnmálaskýrendur virtust á sama máli um að stjórnleysi og beiskja hefðu einkennt fyrstu kappræður forsetaframbjóðendanna tveggja fyrir tæpri viku.