Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, er kominn með sautján prósentustiga forskot á Donald Trump Bandaríkjaforseta samkvæmt nýrri skoðanakönnun Opinium Research og The Guardian.
Um 57% þeirra sem eru líklegir til að kjósa ætla sér að greiða atkvæði með Biden en aðeins 40% segjast ætla að kjósa Trump.
Þetta sautján prósentustiga bil er enn stærra en í skoðanakönnun bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN fyrr í þessum mánuði þar sem Biden var með 57% fylgi á móti 41% hjá Trump.
Þetta mikla forskot er næstum því jafnmikið og Ronald Reagan hafði þegar hann tryggði sér endurkjör sem forseti árið 1984, að sögn The Guardian.
Biden gagnrýndi það hvernig Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tekist á við kórónuveirufaraldurinn er hann ræddi við eldri borgara í ríkinu Flórída.
Í augum forsetans „skiptið þið engu máli, þið eru gleymanleg, þið eru eiginlega ekki neitt. Þannig lítur hann á eldri borgara. Þannig sér hann ykkur“, sagði Biden í miðstöð eldri borgara í suðurhluta Flórída, í borginni Pembroke Pines. Hann sakaði forsetann um að gera lítið úr hættunni sem eldri borgurum stafar af kórónuveirunni.
Ummælin komu degi eftir að Trump hóf kosningaherferð sína á nýjan leik eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. Sagði hann kjósendum að hann hefði náð fullum kröftum, að því er BBC greindi frá.
Ríki á borð við Flórída og Ohio eru mikilvæg þegar kemur að því að safna atkvæðum fyrir forsetakosningarnar.
Trump sigraði naumlega í Flórída í kosningunum árið 2016 með dyggri aðstoð eldri kjósenda en miðað við síðustu skoðanakannanir hafa eldri kjósendur snúið baki við honum í auknum mæli.