Lögreglan þurfti að dreifa stórum hópi fólks í Liverpool í gærkvöldi en fólkið hafði hópast saman á torgi í miðborginni nokkrum klukkustundum áður en hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins tóku gildi.
Myndskeiðum hefur verið deilt á samfélagsmiðlum þar sem fólk dansar og syngur. Fæstir voru með grímu og enn færri virtust huga að fjarlægðamörkum.
Gripið hefur verið til hertra aðgerða vegna kórónuveirufaraldursins í Bretlandi en Liverpool og svæðið þar í kring er eina svæðið sem er í þriðja flokki. Það þýðir að smithætta er talin mjög mikil og börum og veitingastöðum í borginni hefur verið lokað.
„Við skiljum vel að nýjar reglur geti farið í taugarnar á sumum. Þrátt fyrir það hvetjum við alla til að fylgja þeim, þar á meðal virða fjarlægðamörk, til að forðast smithættu,“ sagði lögreglustjórinn Peter Costello.