Útgöngubann frá níu á kvöldin til sex á morgnana tekur gildi í níu borgum í Frakklandi á laugardaginn. Emmanuel Macron forseti landsins tilkynnti um þetta á blaðamannafundi í dag.
Þetta þýðir að íbúar þurfi að halda til heima hjá sér á þessum tíma sólarhringsins, undantekningalítið. Faraldurinn geisar í Frakklandi eins og víðar um Evrópu, en Macron segir þá bylgju sem nú ríður yfir ólíka þeirri sem Frakkar glímdu við í mars, apríl og maí. Nú hefur hún nefnilega breiðst um vítt og breitt um landið.
Ráðstafanirnar eiga að gilda næstu fjórar vikur og þeim er ætlað að koma í veg fyrir ónauðsynlega fundi fólks á þessum tíma dags, enda mynda þeir oft umhverfi þar sem veiran á auðvelt með að dreifa sér.
Fleiri stjórnmálaleiðtogar víða um Evrópu hafa á undanförnum vikum séð sig tilneydda til að grípa til svipaðra neyðarúrræða og Macron. Berlínarbúum var þannig bannað að kaupa áfengi á næturnar síðustu helgi, útgöngubann gildir fyrir hluta Madrídarbúa og í Hollandi voru aðgerðir snarhertar í gær.