Filippus Belgíukonungur hefur hitt hálfsystur sína Delphine de Saxe-Cobourg í fyrsta sinn eftir að hún vann dómsmál um að verða hluti af konungsfjölskyldunni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá konungshöllinni.
Fundurinn átti sér stað níunda október og leiddi til „langra og ríkulegra samskipta“ sem munu verða til þess að sambandið þróast áfram innan „fjölskyldurammans“, sagði í yfirlýsingunni, sem þau Filippus og Delphine undirrituðu.
Listakonan Delphine Boël, laundóttir Alberts fyrrverandi konungs af Belgíu, var sæmd titilinum prinsessa af Belgíu eftir að hún vann dómsmálið. Hún hafði barist fyrir því í sjö ár að fá viðurkennt að hún væri dóttir konungs, en konungurinn átti í framhjáhaldi með móður hennar á sjöunda og áttunda áratugnum.