Alls höfðu 22 milljónir manns í Bandaríkjunum kosið utan kjörfundar á föstudag. Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum 3. nóvember næstkomandi en aldrei hafa jafn margir kosið utan kjörfundar þar áður.
Á sama tímapunkti fyrir forsetakosningarnar árið 2016 höfðu sex milljónir kosið utan kjörfundar. Sérfræðingar segja að aukinn fjöldi þeirra sem kjósi utan kjörfundar sé bein afleiðing kórónuveiruheimsfaraldursins en hann hefur leitt af sér að margir leiti leiða til að þurfa ekki að mæta á kjörstað á kjördag.
Misstrangar reglur eru um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í hverju ríki fyrir sig. Á þriðjudag í Texasríki, þar sem reglurnar eru taldar nokkuð strangar, var slegið met í fjölda atkvæða á fyrsta degi þar sem opið var fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
Í Ohioríki hafa 2,3 milljónir manna kosið utan kjörfundar sem eru tvöfalt fleiri en árið 2016.
Fréttir herma að fleiri demókratar en repúblikanar séu á kjörskrá um þessar mundir og að þeir hafi kosið í meira mæli en repúblikanar. Tölur gefa einnig til kynna að konur og svartir séu í meirihluta þeirra sem kosið hafa snemma.
Demókratar geta þó ekki fagnað sigri strax. Repúblikanar, sem gagnrýnt hafa atkvæðagreiðslu utan kjörfundar harðlega, segja að demókratar vinni kannski í kosningu utan kjörfundar en repúblikanar fjölmenni á kjörstað á kjördag.