Þúsundir söfnuðust saman á Lýðveldistorginu í París í dag til að minnast kennara sem öfgafullur íslamisti hálshjó í síðustu viku eftir að hann hafði sýnt nemendum sínum myndir af spámanninum Múhammeð.
Mótmælendur héldu sumir á skiltum sem á stóð: „Nei við alræðishyggju hugsana“ og „Ég er Samúel“, vísun í Je suis Charlie (Ég er Charlie), slagorðið sem frægt varð eftir hryðjuverkaárásina á skrifstofur skopmyndatímaritsins Charlie Hebdo í París.
Samskonar fjöldasamkomur hafa einnig verið skipulagðar í öðrum stórborgum, svo sem Lyon, Toulousse, Strassborg, Nantes, Lille, Marseille og Bordeaux.
Meðal viðstaddra voru Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, og Jean Castex forsætisráðherra. Fyrir fundinn hafði Jean-Michel Blanquer í sjónvarpsviðtali hvatt „alla til að styðja kennara“ og „sýna samstöðu og einingu“.
Hryðjuverkasaksóknari Frakklands greindi frá því í gær að Samuel Pary, kennarinn sem var drepinn, hefði orðið fyrir hótunum á netinu fyrir að sýna skopmyndirnar áður en hann var drepinn.
Faðir einnar stelpu í skólanum hefði til að mynda kallað eftir „fjöldahreyfingu“ gegn kennaranum og farið fram á að hann yrði rekinn. Maðurinn er á meðal þeirra ellefu sem hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins. Í frétt sænska ríkissjónvarpsins má sjá myndband sem sýnir handtöku meints geranda.