Kína hótar Svíþjóð

Kínverska fyrirtækið Huawei er stærsti fjarskiptatækniframleiðandi í heiminum.
Kínverska fyrirtækið Huawei er stærsti fjarskiptatækniframleiðandi í heiminum. AFP

Kínversk yfirvöld biðluðu til Svíþjóðar í dag að hætta við að banna kínverskum tæknifyrirtækjum að starfa á 5G-netkerfi þeirra, og hótuðu slæmum afleiðingum ef bannið fengi að standa.

Sænska fjarskiptaeftirlitið tilkynnti á þriðjudaginn að símfyrirtækjum væri skylt að fjarlægja allan búnað sem tengist kínversku fjarskiptarisunum Huawei og ZTE fyrir árið 2025, og sögðu það vera gert vegna þjóðaröryggissjónarmiða, samkvæmt AFP-fréttaveitunni.

Kínversk fjarskiptafyrirtæki hafa sætt mikilli gagnrýni vegna hræðslu um að yfirvöld þar í landi noti milliríkjasamninga sína til að njósna um erlenda ríkisborgara. Kínverjar hafa svarað þessum ásökunum með fullum hálsi og neitað þeim algjörlega.

Fulltrúi utanríkisráðuneytis Kína hvatti yfirvöld í Svíþjóð eindregið til að „leiðrétta þessa röngu ákvörðun“ til að komast hjá „neikvæðum áhrifum á viðskiptasamband Kína og Svíþjóðar“.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þvertekur fyrir að banninu sé beint …
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þvertekur fyrir að banninu sé beint að Kína. AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði bannið ekki vera beint að Kína sérstaklega. „Markmið löggjafarinnar er að tryggja öryggi hér í Svíþjóð... en við höfum aldrei beint því að neinu landi,“ sagði forsætisráðherrann.

Svíar eru ekki fyrstir Evrópuþjóða til að hefta starfsemi kínversku fjarskiptarisanna; Bretar bönnuðu símfyrirtækjum að nota Huawei-búnað í nýju 5G-netkerfunum sínum í júlí og Frakkar hafa innleitt víðtækar takmarkanir á sama búnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert