Kínversk yfirvöld biðluðu til Svíþjóðar í dag að hætta við að banna kínverskum tæknifyrirtækjum að starfa á 5G-netkerfi þeirra, og hótuðu slæmum afleiðingum ef bannið fengi að standa.
Sænska fjarskiptaeftirlitið tilkynnti á þriðjudaginn að símfyrirtækjum væri skylt að fjarlægja allan búnað sem tengist kínversku fjarskiptarisunum Huawei og ZTE fyrir árið 2025, og sögðu það vera gert vegna þjóðaröryggissjónarmiða, samkvæmt AFP-fréttaveitunni.
Kínversk fjarskiptafyrirtæki hafa sætt mikilli gagnrýni vegna hræðslu um að yfirvöld þar í landi noti milliríkjasamninga sína til að njósna um erlenda ríkisborgara. Kínverjar hafa svarað þessum ásökunum með fullum hálsi og neitað þeim algjörlega.
Fulltrúi utanríkisráðuneytis Kína hvatti yfirvöld í Svíþjóð eindregið til að „leiðrétta þessa röngu ákvörðun“ til að komast hjá „neikvæðum áhrifum á viðskiptasamband Kína og Svíþjóðar“.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði bannið ekki vera beint að Kína sérstaklega. „Markmið löggjafarinnar er að tryggja öryggi hér í Svíþjóð... en við höfum aldrei beint því að neinu landi,“ sagði forsætisráðherrann.
Svíar eru ekki fyrstir Evrópuþjóða til að hefta starfsemi kínversku fjarskiptarisanna; Bretar bönnuðu símfyrirtækjum að nota Huawei-búnað í nýju 5G-netkerfunum sínum í júlí og Frakkar hafa innleitt víðtækar takmarkanir á sama búnaði.