Ódýrt og hraðvirkt veirupróf brátt aðgengilegt

Fljótlega verður hraðvirkt og ódýrt veirupróf með pappírsræmu aðgengilegt víða um Indland. Vísindamenn vonast til þess að prófið muni auðvelda yfirvöldum að snúa þróun faraldursins á Indlandi við en en Indland er eitt af þeim löndum sem hafa farið hvað verst út úr faraldrinum. 

Fleiri en 7,5 milljón smit hafa verið staðfest á Indlandi og hafa einungis fleiri smit verið staðfest í Bandaríkjunum. Faraldurinn hefur breitt úr sér frá þéttbýlum stórborgum eins og Mumbai til dreifbýlli svæða hvar íbúar hafa takmarkaðan aðgang að læknisþjónustu. 

Nefnt eftir einkaspæjara

Prófið, sem ber heitið Feluda og er nefnt eftir einkaspæjara í frægri indverskri skáldsagnaseríu, líkist óléttuprófi með pappírsræmu. Það leiðir í ljós niðurstöður á innan við klukkustund.

Vísindamenn eru bjartsýnir á að lítill kostnaður við prófið og notagildi þess geti hjálpað til við að koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins á fátækum og afskekktum svæðum. 

„Þetta próf gerir ekki kröfu um fágaðan búnað eða þrautþjálfaðan mannafla,“ sagði Souvik Maiti, einn af vísindamönnunum sem standa að baki prófinu. 

„Það eru mörg afskekkt svæði á Indlandi þar sem ekki er greitt aðgengi að háþróuðum rannsóknarstofum,“ bætti Maiti við. 

Segja prófið nákvæmt

Á Indlandi er Covid-19 nú greint annaðhvort með RT-PCR-prófum, sem eru mjög nákvæm en krefjast háþróaðra rannsóknarvéla, eða mótefnisvakaprófum (e. antigen tests) sem leiða niðurstöður í ljós á örfáum mínútum með takmörkuðum kostnaði en nákvæmni prófanna er lítil. 

Feluda, eins og önnur ódýr veirupróf með pappírsræmum sem þróuð eru í öðrum löndum, sameinar nákvæmni PCR-prófsins og aðgengi mótefnisvakaprófsins, að sögn vísindamannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert