Sjúkrahús að hruni komin

Sjúkrahús í nágrenni Parísar, þar sem útgöngubann er í gildi …
Sjúkrahús í nágrenni Parísar, þar sem útgöngubann er í gildi á næturnar. AFP

Á meðan ástandið í veirumálum á Íslandi færist smátt og smátt til betri vegar er það að versna víða í Evrópu, þ.e.a.s. þar sem það er ekki þegar í sögulegu hámarki. Í Þýskalandi mælist metfjöldi smitaðra á einum degi, 11.242, en ástandið er þó ekki verra þar en í nágrannalöndunum.

Í Süddeutsche Zeitung er sagt frá því að verið sé að fljúga með covid-sjúklinga yfir landamærin frá Hollandi til Þýskalands, þar sem gjörgæsluplássin þar eru þegar uppurin, þó að yfirstandandi bylgja hafi ekki enn náð toppi. Enn á ný er leitað til Þýskalands þegar svo háttar til, svo sem var einnig gert í fyrstu bylgju faraldursins.

Í norðvesturhluta Hollands er heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum, sem skýrist af gríðarlegum fjölda nýsmita. Á fimmtudaginn greindust 9.300 manns og íbúarnir eru 18 milljónir. Ofangreint met Þjóðverja þarf að máta við þær 83 milljónir sem þar búa og sést þá glögglega hvaða staða er uppi í Hollandi.

„Hjálpið okkur!“

Ögn sunnar er staðan síður en svo skárri, hjá Belgum. Þar er nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa rúmt þúsund, samanborið við 230 hér á landi. Í Belgíu ríkir raunar slíkt neyðarástand að virtur þarlendur smitsjúkdómarlæknir, Marius Gilbert, komst í fréttir þegar hann greip til þess örþrifaráðs að tísta til þjóðarinnar.

„Þið sem eruð með 100, 1.000, 10.000 eða 100.000 fylgjendur, hvort sem það er á Facebook eða Instagram, þið sem hittið svona mikið af fólki á hverjum degi, hjálpið okkur! Það er ein mínúta í miðnætti og ykkar framlag getur bjargað lífum, sjúkrahúsin okkar eru að hruni komin.“

Líkkista í Namur, Belgíu.
Líkkista í Namur, Belgíu. AFP

Verst er ástandið loks í Tékklandi þar sem nýgengið mælist 1.148 síðustu tvær vikurnar. Gjörgæslupláss eru af skornum skammti og öndunarvélarnar ekki nógu margar og horft er til Evrópusambands um að útvega þær vélar sem lofað var.

Ógn við heilbrigðiskerfið

Fram­kvæmda­stjóri Sóttvarnastofnunar Evrópu, Europe­an Centre for Disea­se Preventi­on and Control's (ECDC), Andrea Ammon, seg­ir að þessi áfram­hald­andi fjölg­un nýrra Covid-19 smita sé stór­kost­leg ógn við heil­brigðis­kerfi Evrópulanda. 

Staða far­sótt­ar­inn­ar í þess­um ríkj­um og áhrif­in á heil­brigðisþjón­ust­una og mann­fall er ber­sýni­lega að aukast. Mörg sam­fé­lags­smit þýða að það verður sí­fellt erfiðara að vernda þá viðkvæmu í sam­fé­lög­un­um og óumflýj­an­legt að fleiri þeirra munu veikj­ast al­var­lega seg­ir hún.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka