Fréttastofa BBC hefur tekið saman fullyrðingar sem bandarísku forsetaframbjóðendurnir höfðu frammi í seinustu kappræðunum. Ljóst er að frjálslega er farið með staðreyndir þegar í ræðupúltið er komið.
„Faraldurinn er á niðurleið,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Fullyrðingin er nokkuð djörf þar sem sóttvarnarlæknir Bandaríkjanna, Dr. Anthony Fauci, hefur vísað slíku á bug og talið fjölda smita áhyggjuefni. Að meðaltali láta 800 lífið daglega vegna veirunnar.
„Faraldurinn hefur náð mestri útbreiðslu í rauðu ríkjunum [eða ríkjum repúblikana],“ sagði Joe Biden, forsetaefni Demókrata.
Þetta er ekki alveg rétt - faraldurinn er á uppleið jafnt í ríkjum þar sem demókratar eru við völd, sem og í ríkjum repúblikana. Norður- Dakóta, Suður-Dakóta, Montana og Wisconsin hafa orðið illa úti í faraldrinum en Norður-Dakóta og Suður Dakóta eru repúblikanaríki - tvö síðarnefndu eru undir stjórn demókrata.
„Það hefur þegar verið gert ráð fyrir 2,2 milljónum dauðsfalla vegna veirunnar,“ sagði Trump.
Trump vísar til rannsóknar Imperial College London, sem birt var í mars síðastliðinn og gerði ráð fyrir slíku mannfalli í Bandaríkjunum. En það er, þ.e.a.s. ef stjórnvöld myndu ekkert aðhafast. Óljóst er hvort forsetinn hafi skilið eftir þá staðreynd viljandi eður ei, en stefna hans er vísu skýr þegar kemur að lokunum.
„Við höfum mildað dóma hjá yfir þúsund manns [...] .Við léttum byrðar fangelsiskerfisins með því að leysa yfir 38 þúsund fanga undan kerfinu,“ sagði Biden.
Biden fer með rétt mál hvað varðar mildun dóma í forsetatíð Baracks Obama en hann fer ekki með rétt mál hvað varðar fjölda fanga. Um 1.700 fangar fengu mildari refsingu í forsetatíð Obama en á seinasta embættisári hans árið 2016 voru 1.600 færri fangar að afplána refsingu í Bandaríkjunum, síðan árið 2009.