Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hvetur landa sína til að sniðganga allan varning frá Frakklandi í ljósi hertra aðgerða gegn róttækum íslamistum þar í landi.
Erdogan hefur gagnrýnt forseta Frakklands, Emmanuel Macron, fyrir að heita því að vernda veraldleg gildi í landinu. Þessi ummæli Frakklandsforseta komu í kjölfar dauða fransks kennara sem myrtur var fyrir að sýna skopmynd af Múhameð spámanni í kennslustund sinni.
Frakkland „mun ekki gefa skopmyndirnar sínar upp á bátinn,“ sagði Macron fyrr í vikunni.
Allar myndskreytingar og teikningar af Múhameð spámanni eru almennt álitnar bannaðar af fylgjendum íslam, og eru móðgandi gagnvart mörgum múslimum. En í Frakklandi er svokölluð veraldarstefna ríkisins, þ.e. aðskilnaður ríkis og trúarbragða, mikilvægt þjóðareinkenni.
Það að hamla tjáningarfrelsi til að vernda tilfinningar eins tiltekins samfélags grefur undan samheldni þjóðarinnar, segir franska ríkið.