„Faraldurinn er stjórnlaus,“ segir farsóttalæknir á Tenon-sjúkrahúsinu í París, Gilles Pialoux. Hann hvetur ríkisstjórn Frakklands til að grípa til róttækra aðgerða; skella öllu landinu í lás sama hvað það kostar efnahagslífið. Sjúkrahús eru að yfirfyllast í landinu.
Talið er að herða verði sóttvarnareglur enn frekar í Frakklandi þar sem nýjum smitum fjölgar stöðugt. Á sunnudag voru staðfest ný smit rúmlega 52 þúsund talsins og í gær létust 258 úr Covid-19 í Frakklandi. Alls eru rúmlega 34 þúsund látnir af völdum sjúkdómsins í Frakklandi frá því faraldurinn braust út fyrr á árinu.
Í gær voru tæplega 200 lagðir inn á gjörgæsludeildir sjúkrahúsa í Frakklandi og nú eru tæplega þrjú þúsund á gjörgæsludeildum landsins vegna Covid. Allt í allt geta þær tekið á móti 5.800 sjúklingum. Á einhverjum sjúkrahúsum er allt orðið yfirfullt og þau hafa neyðst til þess að flytja sjúklinga á milli stofnana.
„Við verðum að búa okkur undir erfiðar ákvarðanir,“ segir innanríkisráðherra Frakklands, Gérald Darmanin, í viðtali við France Inter. „Þar kemur að við verðum að taka erfiðar ákvarðanir líkt og nágrannar okkar hafa þurft að gera,“ segir Darmanin og vísar þar til Ítalíu, Spánar og fleiri ríkja Evrópu.
Franska ríkisstjórnin er treg til að setja á reglur sem kveða á um að fólk haldi sig heima og atvinnulífinu verði skellt í lás líkt og gert var í fyrstu bylgju faraldursins. Það myndi hafa gríðarleg áhrif á atvinnulífið og hafa forsvarsmenn þess varað við því að það þýði fjölda gjaldþrota og uppsagna starfsfólks.
Fyrr í mánuðum var sett útgöngubann, sem nú nær til 46 milljóna landsmanna, frá klukkan 21 á kvöldin til morguns.
Franskir fjölmiðlar segja að Emmanuel Macron forseti muni jafnvel lengja útgöngubannstímann, jafnvel verði fólki bannað að vera á ferli um helgar eða útivistarreglur hertar í þeim héruðum þar sem staðan er verst. Það er að atvinnulífinu verði skellt þar í lás. Ríkisstjórn Frakklands kom saman á aukafundi í morgun til að ræða stöðuna sem blasir við.
Annar möguleiki sem er nú ræddur er að fresta því að námsmenn snúi aftur í skólann eftir haustfrí, einkum framhaldsskóla- og háskólanemar, en leyfinu lýkur um helgina.
Jean Castex forsætisráðherra ætlar að funda með formönnum stjórnmálaflokkanna og leiðtogum stéttarfélaga síðar í dag og í fyrramálið mun ríkisstjórnin hitta forsetann að nýju þar sem ákvarðanir um framhaldið verða teknar.
Damien Abad, sem er formaður þingflokks Repúblikanaflokksins, segist frekar vilja að ákveðnum svæðum verði gert að skella í lás núna en að loka þurfi öllu landinu yfir jólin. „Hagkerfið getur jafnað sig en þú snýrð ekki aftur ef gjörgæsludeildir gefa sig,“ segir hann.