António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varaði við því að Covid-19 faraldurinn stefndi þeim árangri í hættu sem náðst hefur í sjálfbærri þróun.
„Faraldurinn er ekki aðeins heilsuvá. Sá stöðugi árangur sem náðst hefur frá aldamótum í sjálfbærri þróun er í hættu,“ sagði Guterres þegar hann ávarpaði Norðurlandaráð í dag.
Guterres hrósaði Norðurlöndum sem hann sagði „mikla vini Sameinuðu þjóðanna og stuðningsmenn fjölþjóðlegrar samvinnu og sjálfbærrar þróunar.“
Hann sagði að fundur Norðurlandaráðs átti sér stað á tímum kreppu og óvissu. Heimurinn stæði andspænis faraldri sem hefði dregið fram í dagsljósið margs kyns veikleika í samfélögum okkar.
Guterres sagði að nokkur jákvæð teikn væru á lofti í baráttunni við faraldurinn. Alþjóðleg samvinna hefði skilað árangri í að tryggja Covid-próf í fátækari ríkjum og samvinna lofaði góðu um kaup á bóluefni. Hins vegar sagði hann að þörf væri á að afla 14 milljarða Bandaríkjadala til að fjármagna verkefnin.
„Það er afar þýðingarmikið að bóluefni sé til, standi öllum til boða og á viðráðanlegu verði … enginn er öruggur fyrr en við erum öll örugg,” sagði Guterres.
Aðalframkvæmdastjórinn minnti á að loftslagsbreytingar sem hann sagði að snertu Norðurlönd sérstaklega, ykjust hröðum skrefum. Hitamet hefðu verið slegin á Norðurskautinu á þessu ári. Það væri raunverulegur möguleiki að norðurskautið yrði íslaust á okkar æviskeiði.
Hann sagði að Sameinuðu þjóðirnar myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að efla metnaðarfullar aðgerðir í loftslagmálum. „Ríki ykkar hafa sögulega verið á meðal öflugustu stuðningsmanna loftslagsaðgerða og Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Heimurinn þarf á forystu ykkar að halda meir en nokkru sinni fyrr. Það er von mín að félagar í Norðurlandaráði muni vera alheims-fyrirmynd um grænt og sjálfbær endurreisnarstarf í allra þágu.“
Auk António Guterres voru þátttakendur Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, ásamt norrænu forsætisráðherrunum og oddvitum landsstjórnanna, þeim Mette Frederiksen, Sönnu Marin, Stefan Löfven, Ernu Solberg, Katrínu Jakobsdóttur, Kim Kielsen, Bárði á Steig Nielsen og Veronicu Thörnroos.