Þingið samþykkir Barrett

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti nú í kvöld tilnefningu Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi Barrett til starfsins í síðasta mánuði eftir að Ruth Bader Ginsburg dómari féll frá, 87 ára að aldri. Ferlið gekk nokkuð hratt fyrir sig enda repúblikanar ólmir í að skipa dómara áður en forsetakosningar fara fram í landinu í næstu viku.

Alls greiddi 51 þingmaður Repúblikanaflokksins atkvæði með tilnefningunni en allir 48 þingmenn demókrata, auk repúblikanans Susan Collins frá Maine, greiddu atkvæði gegn henni. Er þetta í fyrsta sinn í 151 ár sem þingið samþykkir hæstaréttardómara án atkvæðis nokkurs þingmanns minnihlutans.

Barrett er fimmta konan til að taka við embætti hæstaréttardómara en alls hafa 115 setið í dómnum frá því hann tók til starfa árið 1789.

Sterkur meirihluti íhaldsmanna

Með skipaninni breytast valdahlutföll innan réttarins íhaldsmönnum í vil. Sex dómarar við réttinn hafa nú verið skipaðir af forsetum repúblikana en þrír af forsetum demókrata. Við upphaf forsetatíðar Trumps var staðan 5-4 íhaldsmönnum í vil.

Óttast frjálslyndir vestra að ýmsum réttindum á borð við hjónabönd samkynhneigðra, og réttinn til þungunarrofs kunni að stafa ógn af svo íhaldssömum hæstarétti, auk þess sem rétturinn sé vís til að verða þrándur í götu forseta og þings sem vilja íþyngja fyrirtækjum með hertum reglum í þágu umhverfisins.

Demókratar hafa sakað repúblikana um hræsni fyrir að keyra tilnefninguna í gegn svo stuttu fyrir kosningar. Fyrir fjórum árum komu repúblikanar, sem höfðu þá sem nú meirihluta í öldungadeildinni, í veg fyr­ir að Barack Obama, þáver­andi Banda­ríkja­for­seti, fengi sínu fram­gengt þegar hann til­nefndi Merrick Garland í laust sæti hæsta­rétt­ar­dóm­ara.

Voru rök repúblikana þau að of stutt væri til kosninga og að bíða skyldi fram yfir þær til að það skyldi koma í hlut sigurvegara forsetakosninganna að skipa í laust sæti.

Repúblikanar hafa hins vegar haldið því fram að aðrar reglur gildi þegar flokkur forsetans hefur einnig þingmeirihluta.

Amy Coney Barrett, nýskipaður hæstaréttardómari, ásamt Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Amy Coney Barrett, nýskipaður hæstaréttardómari, ásamt Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert