Þingið samþykkir Barrett

00:00
00:00

Öld­unga­deild Banda­ríkjaþings samþykkti nú í kvöld til­nefn­ingu Amy Co­ney Bar­rett í embætti hæsta­rétt­ar­dóm­ara.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti til­nefndi Bar­rett til starfs­ins í síðasta mánuði eft­ir að Ruth Bader Gins­burg dóm­ari féll frá, 87 ára að aldri. Ferlið gekk nokkuð hratt fyr­ir sig enda re­públi­kan­ar ólm­ir í að skipa dóm­ara áður en for­seta­kosn­ing­ar fara fram í land­inu í næstu viku.

Alls greiddi 51 þingmaður Re­públi­kana­flokks­ins at­kvæði með til­nefn­ing­unni en all­ir 48 þing­menn demó­krata, auk re­públi­kan­ans Sus­an Coll­ins frá Maine, greiddu at­kvæði gegn henni. Er þetta í fyrsta sinn í 151 ár sem þingið samþykk­ir hæsta­rétt­ar­dóm­ara án at­kvæðis nokk­urs þing­manns minni­hlut­ans.

Bar­rett er fimmta kon­an til að taka við embætti hæsta­rétt­ar­dóm­ara en alls hafa 115 setið í dómn­um frá því hann tók til starfa árið 1789.

Sterk­ur meiri­hluti íhalds­manna

Með skip­an­inni breyt­ast valda­hlut­föll inn­an rétt­ar­ins íhalds­mönn­um í vil. Sex dóm­ar­ar við rétt­inn hafa nú verið skipaðir af for­set­um re­públi­kana en þrír af for­set­um demó­krata. Við upp­haf for­setatíðar Trumps var staðan 5-4 íhalds­mönn­um í vil.

Ótt­ast frjáls­lynd­ir vestra að ýms­um rétt­ind­um á borð við hjóna­bönd sam­kyn­hneigðra, og rétt­inn til þung­un­ar­rofs kunni að stafa ógn af svo íhalds­söm­um hæsta­rétti, auk þess sem rétt­ur­inn sé vís til að verða þránd­ur í götu for­seta og þings sem vilja íþyngja fyr­ir­tækj­um með hert­um regl­um í þágu um­hverf­is­ins.

Demó­krat­ar hafa sakað re­públi­kana um hræsni fyr­ir að keyra til­nefn­ing­una í gegn svo stuttu fyr­ir kosn­ing­ar. Fyr­ir fjór­um árum komu re­públi­kan­ar, sem höfðu þá sem nú meiri­hluta í öld­unga­deild­inni, í veg fyr­ir að Barack Obama, þáver­andi Banda­ríkja­for­seti, fengi sínu fram­gengt þegar hann til­nefndi Merrick Garland í laust sæti hæsta­rétt­ar­dóm­ara.

Voru rök re­públi­kana þau að of stutt væri til kosn­inga og að bíða skyldi fram yfir þær til að það skyldi koma í hlut sig­ur­veg­ara for­seta­kosn­ing­anna að skipa í laust sæti.

Re­públi­kan­ar hafa hins veg­ar haldið því fram að aðrar regl­ur gildi þegar flokk­ur for­set­ans hef­ur einnig þing­meiri­hluta.

Amy Coney Barrett, nýskipaður hæstaréttardómari, ásamt Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Amy Co­ney Bar­rett, ný­skipaður hæsta­rétt­ar­dóm­ari, ásamt Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert