Demókratar færa út vígvöllinn og Trump leikur vörn

Forsetinn á fjöldafundi í Wisconsin í gær.
Forsetinn á fjöldafundi í Wisconsin í gær. AFP

Demókratar veðja nú á að þeir geti fært pólitíska vígvöllinn í komandi forsetakosningum út til ríkja sem alla jafna eru hliðholl repúblikönum. Donald Trump Bandaríkjaforseti þarf á sama tíma að leika vörn í mörgum þeim barátturíkjum sem hann sigraði í kosningunum árið 2016.

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, ferðaðist í gær til Georgíu en þar hefur frambjóðandi repúblikana sigrað í öllum kosningum frá árinu 1992.

Síðar í þessari viku mun Biden ferðast til Iowa. Trump sigraði í ríkinu með ágætum atkvæðamun í síðustu kosningum, eftir að Barack Obama fór þar með sigur af hólmi í kosningunum 2008 og 2012.

Varaforsetaefni Bidens, Kamala Harris, mun þá fljúga til Texas og Arizona. Það vekur athygli þar sem Texas hefur fallið í skaut repúblikana í síðustu tíu kosningum og Arizona í síðustu fimm, að því er segir í umfjöllun Wall Street Journal.

Joe Biden fer til Iowa síðar í þessari viku.
Joe Biden fer til Iowa síðar í þessari viku. AFP

Tveir fjöldafundir í Arizona í dag

Trump ferðast á sama tíma til að minnsta kosti fimm ríkja sem hann vann árið 2016 og gegna lykilhlutverki í ár, ætli hann sér að bera sigur úr býtum.

Hann hélt þrjá fjöldafundi í Pennsylvaníu á mánudag, þar sem hann sigraði naumlega árið 2016, en kannanir um þessar mundir sýna að meðaltali fram á 4,5 prósentustiga forskot Bidens í ríkinu.

Í gær hélt Trump áfram með fjöldafundi í Michigan, Wisconsin og Nebraska, og í dag eru á áætlun forsetans tveir fjöldafundir í Arizona.

12% líkur á sigri Trumps

Bandaríski vefmiðillinn FiveThirtyEight, sem sérhæfir sig í að spá fyrir um úrslit kosninga með því að taka saman og vega niðurstöður kannana, metur það nú svo að minnstu muni á milli frambjóðendanna tveggja í Iowa og Georgíu.

Hvað áætlaðan atkvæðafjölda varðar munar þannig 0,1 prósentustigi í Iowa, Biden í vil, og 0,2 í Georgíu, þar sem Biden hefur einnig forskotið.

Spáir vefurinn því nú að 12% líkur séu á sigri sitjandi forseta, en 88% líkur á að Biden standi uppi sem sigurvegari kosninganna. Til samanburðar taldi vefurinn 31% líkur á sigri Trumps 1. september síðastliðinn, og á sama tíma 69% líkur á sigri Bidens.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert