Aldrei hafa jafn margir verið lagðir inn á sjúkrahús á einum degi í Belgíu, frá því kórónufaraldurinn hófst snemma á árinu, og í gær. Miðað við höfðatölu eru smitin flest í Belgíu í heiminum. Í Þýskalandi verða sóttvarnareglur væntanlega hertar til muna innan skamms.
Alls eru íbúar Belgíu 11,5 milljónir talsins og hefur landið náð þeim vafasama heiðri að vera með fleiri smit á hverja 100 þúsund íbúa en Tékkland.
Í gær voru 689 lagðir inn á sjúkrahús í Belgíu vegna Covid-19 og hafa aldrei verið fleiri. Fyrra metið var frá 28. mars en þá voru innlagnirnar 629 talsins. Þetta þýðir að nú eru inniliggjandi 5.554 einstaklingar á sjúkrahúsum sem er nánast sami fjöldi og 6. apríl þegar heilbrigðisyfirvöld í Belgíu óttuðust að gjörgæsludeildir landsins væru að yfirfyllast.
Rúmlega 100 létust af völdum Covid-19 í Belgíu á mánudag og hafa ekki verið fleiri síðan 29. apríl. Alls eru rúmlega 11 þúsund látnir af völdum veirunnar í Belgíu.
Í Belgíu hafa barir og veitingastaðir verið lokaðir frá því 19. október og útgöngubann er í gildi á ákveðnum svæðum að næturlagi. Ekki mega fleiri en fjórir koma saman.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mun eiga neyðarfund með leiðtogum sambandsríkjanna í dag þar sem fjallað er um að herða reglur enn frekar. Meðal annars verði veitingastöðum, kaffihúsum og börum lokað en þeim heimilt að selja veitingar sem viðskiptavinir taka með sér eða fá sent til síns heima. Allri afþreyingar- og íþróttastarfsemi verði jafnframt hætt.
Miðað er við að nýjar og hertar sóttvarnareglur taki gildi 4. nóvember og gildi út nóvember en vonast er til að með þessu verði hægt að bjarga jólunum.
Skólar, leikskólar og verslanir verði áfram opin en aðeins þeir sem eiga brýnt erindi fá heimild til að gista á hótelum. Ferðamenn fá þar ekki inni.
Í reglugerðardrögum segir að tilgangurinn sé að stöðva fjölgun smita þannig að hægt verði að draga verulega úr takmörkunum yfir jólahátíðina. Þannig að fólk geti hist í eigin persónu og atvinnulífið starfað með þokkalega eðlilegum hætti. Til að mynda megi fjölskyldur og vinir hittast en ráðlagt að fylgja einstaklingsbundnum sóttvörum. Á svipaðan hátt og var í vor.
Alls hafa verið staðfest um 450 þúsund smit í Þýskalandi frá því faraldurinn hófst í byrjun árs. Rúmlega 10 þúsund þeirra hafa látist.
Í gær voru 1.470 á gjörgæsludeildum landsins og hefur fjölgað um rúmlega 1.100 á stuttum tíma. Nóg er til af rúmum og öndunarvélum en það sem helst háir starfseminni er skortur á heilbrigðismenntuðu starfsfólki.