Christian Etrosi, borgarstjóri Nice þar sem þrír voru myrtir í og við Notre Dame basilíkuna í morgun, kallar eftir því að kirkjur um allt landið fái aukna öryggisgæslu eða þeim verði lokað til að koma í veg fyrir frekari árásir.
Innanríkisráðherrann Jean Castex hefur tilkynnt þinginu að hann hafi ákveðið að færa viðbúnaðarstigið í landinu upp í það hæsta í kjölfar árásarinnar.
Saksóknarar hryðjuverkamála í landinu hafa hafið rannsókn á árásinni, sem Etrosi kennir við „íslamófasisma“.
„Hann hélt áfram að endurtaka „Allahu Akbar“ (a. guð er meiri), jafnvel þegar búið var að gefa honum lyf,“ tjáði borgarstjórinn blaðamönnum á vettvangi, en árásarmaðurinn var skotinn af lögreglu og særðist alvarlega.
Maðurinn hafði ráðist til atlögu í basilíkunni um klukkan níu í morgun. Náði hann að myrða þar karl og konu. Önnur kona lést svo af sárum sínum eftir að hafa leitað skjóls á krá sem stendur við hlið kirkjunnar, samkvæmt heimildum AFP-fréttaveitunnar.
Heimildarmenn fjölmiðla eru nú ekki á einu máli um hvort önnur kvennanna hafi verið afhöfðuð eða hún skorin á háls. Dagblaðið Le Monde hermir að árásarmaðurinn hafi ráðist á hana inni í kirkjunni, skorið hana á háls og reynt að afhöfða hana.
Viðbúnaðarstigið hefur verið hátt í Frakklandi allt frá því hryðjuverkamenn réðust inn á skrifstofur skoptímaritsins Charlie Hebdo í janúar árið 2015. Réttarhöld yfir fólki sem grunað er um tengsl við þá árás standa yfir um þessar mundir í höfuðborginni París.
Íslamskir hryðjuverkamenn hafa myrt fleiri en 250 manns í Frakklandi frá 2015 og til dagsins í dag.
Þar af létust 86 manns þegar íslamisti keyrði flutningabíl í gegnum mikinn fólksfjölda sem saman var kominn á göngugötu í Nice á þjóðhátíðardegi Frakka 14. júlí 2016.
Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því þúsundir manna víða um landið þustu út á götur til að votta samúð sína og stuðning eftir að kennarinn Samuel Paty var afhöfðaður fyrir að hafa sýnt nemendum sínum skopmyndir af íslamska spámanninum Múhameð.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur síðan lofað aðgerðum gegn íslamskri öfgatrú í landinu, meðal annars með því að loka moskum og samtökum sem sökuð eru um að kynda undir öfgahyggju og ofbeldi.
Þær fyrirætlanir hafa síðan vakið mótmæli í nokkrum löndum þar sem íslömsk trú er ríkjandi.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur til að mynda hvatt landa sína til að sniðganga allan varning frá Frakklandi í ljósi hertra aðgerða gegn róttækum íslamistum.
Og í morgun særði Sádi-Arabi öryggisvörð við ræðismannsskrifstofu Frakklands í borginni Jedda. Var öryggisvörðurinn fluttur á sjúkrahús en þykir ekki í lífshættu.
Yfirvöld í Tyrklandi, Ítalíu, Bretlandi og Vatíkaninu eru á meðal þeirra sem þegar hafa sagst fordæma árásina.
1.450 ár eru í dag frá fæðingu spámannsins Múhameðs. Hann fæddist árið 570 í Mekka og lést 8. júní árið 632 í Medínu.