Vísindamenn við Stanford-háskóla fullyrða að 18 kosningafundir Trumps Bandaríkjaforseta hafi leitt beint eða óbeint til 30 þúsund kórónuveirusmita og 700 dauðsfalla, víðs vegar um Bandaríkin. Þetta eru niðurstöður rannsókna sem gerðar voru á heildarfjölda smita í þeim borgum og bæjum sem Trump hefur heimsótt milli 20. júní og 22. september.
Gögnin sem notuð eru í rannsóknina koma ýmist frá stjórnvöldum eða virtum háskólum á borð við John Hopkins-háskóla. Þeir sem stóðu að rannsókninni eru ekki vísindamenn á sviði heilbrigðis- eða læknisfræði heldur tölfræða, enda er unnið með tölur og lýsigögn í rannsókninni.
Þá kemur jafnframt fram að þeir sem mættu á kosningafundi Trumps, bæði innan- og utandyra, séu ekki endilega þeir sem létust. Eins og fyrr segir fullyrða vísindamenn að 700 manns, að minnsta kosti, hafi látist af völdum kosningafunda Trumps, og þykir vísindamönnum líklegt að fæstir þeirra hafi yfir höfuð mætt á kosningafundina, heldur smitast af öðrum sem þar voru.
Engar upplýsingar í rannsókninni er að finna um kosningafundi Joes Bidens, frambjóðanda demókrata til forseta Bandaríkjanna. Hann hefur, líkt og Trump, ferðast um gervöll Bandaríkin til þess að vinna hylli kjósenda.