Fjöldi dauðsfalla gæti orðið tvöfalt meiri

Boris Johnson á blaðamannafundi á laugardag. Þar kynnti hann hertar …
Boris Johnson á blaðamannafundi á laugardag. Þar kynnti hann hertar aðgerðir. AFP

Fjöldi dauðsfalla vegna Covid-19 gæti orðið tvöfalt meiri í vetur en hann var í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins, segir í yfirlýsingu Boris Johnsons forsætisráðherra Bretlands sem hann mun væntanlega flytja fyrir breska þingið í dag. BBC greinir frá.

Í yfirlýsingunni mun hann segja að það sé enginn annar valkostur, þegar hann leitast við að fá stuðning þingsins við fyrirhugað fjögurra vikna útgöngubann víðs vegar um England. Johnson mun þó útskýra að hann hafi haft „rétt á að prófa alla mögulega valkosti“ áður en hann skipaði fólki að hada sig heima. 

Verkamannaflokkurinn hefur nú þegar gefið út að hann muni styðja við ákvörðun um útgöngubann en gagnrýna þann tíma sem það tók Johnson að komast að þeirri niðurstöðu. 

Johnson tilkynnti á laugardag að harðar aðgerðir tækju gildi víða um England frá og með fimmtudegi. Aðgerðirnar felast t.d. í því að börum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum og helgistöðum verður lokað sem og verslunum sem teljast ekki nauðsynlegar. Þá verður fólk beðið um að halda sig heima með örfáum undantekningum þó. 

Aðgerðirnar verða kunngjörðar í smáatriðum áður en þingmennirnir kjósa um þær á miðvikudag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert