Árásarmaðurinn sem drap þrjár manneskjur við Notre-Dame-basilíkuna í Nice í síðustu viku er með Covid-19. Þetta þýðir seinkun á að hægt sé að yfirheyra hann varðandi árásina.
Brahim Issaoui, 21 árs Túnisbúi, er á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn nokkrum skotum af lögreglu eftir hnífaárásina á fimmtudaginn. Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að sýnataka hafi leitt í ljós að hann sé smitaður. Ekki er vitað um líðan hans að öðru leyti.
Issaoui, sem er á sakaskrá í heimalandinu fyrir ofbeldisbrot og fíkniefnamisferli, kom til Frakklands í síðasta mánuði. Þaðan kom hann frá ítölsku eyjunni Lampedusa þar sem hann kom á land ásamt hópi flóttamanna.
Ítalskir fjölmiðlar hafa greint frá því að hann hafi verið settur í sóttkví ásamt tæplega 400 öðrum hælisleitendum um borð í ferju áður en þeim var heimilt að koma í land í Bari 9. október. Rannsókn sýnir að hann kom til Nice 27. október, aðeins tveimur dögum áður en hann framdi ódæðið.
Hann skar konu á háls og stakk starfsmann kirkjunnar til bana inni í kirkjunni. Önnur kona sem náði að flýja af vettvangi lést af völdum áverka síðar sama dag.
Að sögn lögreglu öskraði Issaoui Guð er máttugastur á arabísku (Allahu akbar) þegar þeir fóru gegn honum. Sex voru handteknir í kjölfar árásarinnar vegna gruns um að tengjast Issaoui en aðeins einn þeirra er enn í haldi, 29 ára gamall Túnisbúi sem var um borð í sama bát og árásarmaðurinn kom með til Lampedusa.