Bóksali framseldur í dauðann

Said Mansour, vinstra megin, í bókaverslun sinni við Istedgate árið …
Said Mansour, vinstra megin, í bókaverslun sinni við Istedgate árið 2001. Skjáskot/YouTube

Þegar dönsk stjórnvöld framseldu „bóksalann frá Brønshøj“ til Marokkó í janúar í fyrra, þar sem hans biðu réttarhöld fyrir hryðjuverk í Casablanca sem kostaði 45 mannslíf árið 2003, kváðu þáverandi forsætisráðherra og ráðherra innflytjendamála, Lars Løkke Rasmussen og Inger Støjberg, marokkósk stjórnvöld hafa fullvissað þau dönsku um að öryggi bóksalans væri tryggt.

Nú hefur bóksalinn, Said Mansour, hins vegar verið dæmdur til dauða sem gerir Dani brotlega gegn alþjóðlegum sáttmálum sem banna framsal eða brottvísun manna sem gætu átt dauðarefsingu yfir höfði sér í móttökulandinu. Trine Maria Ilsøe, dómsmálaskrifari danska ríkisútvarpsins DR, og fleiri velta því nú fyrir sér hver staða Danmerkur sé í málinu í kjölfar dauðadómsins.

Al Nur Boghandel

Mansour, sem fæddur er árið 1960, fluttist til Danmerkur árið 1983 í skjóli danskra reglna um fjölskyldusameiningu, en systir hans var þá þegar búsett í landinu. Hann kynntist stúlku sem snerist til íslamstrúar og annaðist ímaminn Abu Laban, þá þjóðþekktur leiðtogi innan íslamska samfélagsins í Danmörku, hjónavígslu þeirra árið 1984. Varð þeim fjögurra barna auðið en slitu síðar samvistir.

Mansour opnaði þá bókaverslun við Istedgade í Kaupmannahöfn, Al Nur Boghandel, og seldi þar bókmenntir hins íslamska heims en auk þess kvikmyndir, föt, ilmvötn og fleira.

Er fram liðu stundir tók að bera á róttækum áróðri frá bóksalanum sem þá hafði stofnað eigið forlag, Al Nur Islamic Information, sem hann beitti meðal annars í þessum tilgangi. Hleraði lögregla síma hans árið 2003 vegna grunsemda um að hann hvetti til hryðjuverka gegn hinum vestræna heimi.

Tengdist „blinda sjeiknum“

Upp úr kafinu kom að Mansour hafði tengsl við ýmsa áhrifamenn sem vöktu litla hrifningu danskra yfirvalda, svo sem Omar Abdel-Rahman, öðru nafni „blinda sjeikinn“ sem dæmdur var í 240 ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að hafa ásamt fleirum staðið á bak við sprengjutilræðið í World Trade Center árið 1993 auk þess að leggja á ráðin um að sprengja byggingu Sameinuðu þjóðanna í New York í loft upp, tvenn göng, George Washington-brúna og byggingu FBI.

Annar kunningi Mansour var egypski skurðlæknirinn og al-Qaeda-leiðtoginn Ayman al-Zawahiri auk þess sem efni úr bókaverslun Mansour fannst í fórum Mohamed Atta sem endaði líf sitt í flugstjórnarklefa í norðurturni World Trade Center að morgni 11. september 2001.

Tók nú að hitna undir bóksalanum, einkum eftir að tengsl hans við fjögur ungmenni í svokölluðu Glostrup-máli árið 2005 komu í ljós, en í því fóru tveir menn til Sarajevo í Bosníu til að nálgast tæp 20 kílógrömm af sprengiefni, en voru handteknir þar eftir ábendingu frá sænsku öryggislögreglunni Säpo. Hafði bóksalinn verið í miklum tengslum við fjórmenninga sem að því máli komu auk þess sem skriflegar ráðagerðir um hryðjuverkaárás fundust í verslun hans.

Sviptur ríkisfangi

Hlaut Mansour þar sinn fyrsta dóm, árið 2007, sem hljóðaði upp á þrjú og hálft ár. Næsta mál hófst svo í febrúar 2014, en þar var hann dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir að hvetja til hryðjuverka gegnum samfélagsmiðla auk þess að hylla al-Qaeda-samtökin. Við sama tækifæri var Mansour sviptur dönskum ríkisborgararétti sem hann hafði hlotið við hjónabandið árið 1984.

Bóksalinn um borð í Stórabeltisferjunni árið 1990 ásamt „blinda sjeiknum“ …
Bóksalinn um borð í Stórabeltisferjunni árið 1990 ásamt „blinda sjeiknum“ Omar Abdel-Rahman meðan á heimsókn hans til Danmerkur stóð. Abdel-Rahman hlaut síðar 240 ára dóm í Bandaríkjunum fyrir tengsl við sprengjutilræðið í World Trade Center árið 1993, auk þess að hafa lagt á ráðin um fjölda hryðjuverka, og lést í fangelsi í Norður-Karólínu árið 2017. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þar með gátu dönsk yfirvöld framselt bóksalann, sem þau höfðu þó tvívegis neitað að gera, og var flogið með hann til Marokkó í janúar í fyrra eftir að ráðuneyti útlendinga- og aðlögunarmála í Danmörku hafði tekið loforð af marokkóskum stjórnvöldum um að Mansour yrði ekki látinn sæta pyntingum.

Ekki fréttist af pyntingum en bóksalinn var hins vegar dæmdur til dauða nú fyrir skemmstu, eins og fyrr segir. Dauðadómi hefur reyndar ekki verið fullnægt í Marokkó síðan árið 1993 og hefur verjandi Mansour í Marokkó áfrýjað dómnum.

Þar lágu Danir í því

Trine Maria Ilsøe hjá DR telur málið engu að síður óheppilegt fyrir dönsk stjórnvöld sem hefðu, samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, aldrei átt að framselja einstakling til lands þar sem lífi hans væri ógnað.

Eigil Strand, verjandi Mansour í Danmörku, tekur í sama streng og segir þetta einmitt hafa verið það sem hann óttaðist. „Danska ríkið lendir þarna í óæskilegri stöðu ef við höfum hreinlega framselt borgara til lands þar sem hann hlýtur dauðadóm. Engin trygging er fyrir því að dómnum verði ekki fullnægt. Sitjandi stjórnvöld og ráðamenn ákveða hvort refsingin verði framkvæmd á meðan hann er lífs og það er mikil áhætta að hafa slíkt hangandi yfir sér,“ segir Strand við DR.

„Þótt nú sé of snemmt að segja til um hvort dómurinn muni hafa afleiðingar fyrir Danmörku,“ segir Ilsøe, „verður athyglisvert að fylgjast með framvindunni þar sem um svo grátt svæði er að ræða.“

Strand verjandi vill þó að dönsk stjórnvöld taki af skarið og krefjist þess að marokkósk stjórnvöld geri ekkert sem brjóti gegn skuldbindingum Danmerkur. „Öll rök hníga að því að danska ríkið grípi inn í og fái það á hreint hvað hefur gerst þarna niður frá,“ segir Strand að lokum.

DR

DRII („Hef ekki saknað hans í sekúndu“)

Jyllands-Posten

Politiken

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka