„Ég ætti að lýsa yfir sigri“

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, er í heimabæ sínum Scranton í Pennsylvaníu. Hann ræddi við kjósendur utan við kjörstað og notaðist við gjallarhorn svo hann gæti ávarpað fámennan hópinn án þess að standa of nærri honum.

Biden sagði stuðningsmönnum stoltur frá því að hann hefði hlotið öll atkvæðin sem greidd voru á fyrsta kjörstaðnum til að birta niðurstöður. Það var í smábænum Dixville Notch í New Hampshire, þar sem allir fimm kjósendurnir kusu Biden.

Metfjöldi utankjörfundaratkvæða

„Mér er sagt að ég sé fyrstur til að vinna samhljóða — öll fimm atkvæðin. Svo miðað við hugmyndir Trumps þá ætti ég að lýsa yfir sigri hér og nú,“ sagði Biden léttur. Skaut hann þar á Donald Trump forseta, sem hefur ítrekað talað um mikilvægi þess að úrslit liggi fyrir sem fyrst, á kosninganóttinni sjálfri. 

Þótt jafnan liggi niðurstöður fyrir á kosninganóttu hafa sérfræðingar bent á að það verði ekki endilega raunin að þessu sinni. Metfjöldi utankjörfundaratkvæða geti tafið talninguna og ástæða sé til að ætla að útlitið í einstaka ríkjum geti breyst eftir því sem utankjörfundaratkvæðin fara að tínast inn. Fleiri demókratar en repúblikanar eru nefnilega taldir hafa greitt atkvæði utan kjörfundar.

Þó má bæta við að Richard Nixon afrekaði það einnig árið 1960 að fá öll atkvæðin í Dixville Notch, sem þá voru níu talsins. Það dugði honum þó ekki til sigurs gegn demókratanum John F. Kennedy.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert