Verður það Biden eða Trump?

AFP

Tæplega 100 milljónir hafa þegar greitt atkvæði í bandarísku forsetakosningunum þrátt fyrir að fyrstu kjörstaðir verði opnaðir klukkan 10 að íslenskum tíma í Vermont.

Frétt BBC

Gríðarleg spenna ríkir um hvernig fer: Verður Donald Trump endurkjörinn forseti eða tekur Joe Biden við sem forseti Bandaríkjanna? Skoðanakannanir eru Biden í vil en báðir frambjóðendur hafa nýtt síðustu daga vel við að kynna sig fyrir kjósendum. Þingkosningar fara einnig fram í dag og þykja demókratar standa sterkt að vígi í baráttunni um Bandaríkjaþing, þar sem þeir eygja þann möguleika að ráða yfir báðum deildum þingsins í fyrsta sinn frá árinu 2010.

Gríðarmikil kjörsókn hefur verið að þessu sinni og stefnir allt í að þátttaka í kosningunum verði hin mesta í 120 ár. 

Fylgst verður með framgangi kosninganna í alla nótt á mbl.is

Í grein Odds Þórðarsonar á mbl.is í síðustu viku kom fram að þau ríki sem tal­in eru geta ráðið úr­slit­um eru til að mynda Arizona, Flórída og Penn­sylvan­ía. Það þýðir að ekki er útséð um hvor fram­bjóðend­anna sigri í þeim ríkj­um, og verða því allra augu á þeim á kosninganótt. Sér í lagi Flórída og Penn­sylvan­íu, en eng­inn hef­ur orðið for­seti und­an­far­in ár án þess að vinna í Flórída.

Donald Trump í Michigan í gærkvöldi.
Donald Trump í Michigan í gærkvöldi. AFP

Úrslit í Flórída ber­ast yf­ir­leitt til­tölu­lega snemma, og því verður grannt fylgst með Penn­sylvaníu þegar úr­slit­in liggja fyr­ir í Flórída. Talið er að Penn­sylvan­ía sé það ríki sem muni veita öðrum hvor­um fram­bjóðand­an­um þá kjör­menn sem til þarf til að vinna, eða 270 í heild.

„Það er nefni­lega ekki svo í Banda­ríkj­un­um að fjöldi at­kvæða ráði úr­slit­um um hver verði for­seti og hver lúti í lægra haldi. Það gera svo­kallaðir kjör­menn. Öll 50 ríki Banda­ríkj­anna eru með tvo kjör­menn, jafn­marg­ir og öld­unga­deild­arþing­menn hvers rík­is.

Hins veg­ar bæta rík­in svo við sig kjör­mönn­um eft­ir íbúa­fjölda. Þannig er fjöl­menn­asta ríkið, Kali­forn­ía, með 55 kjör­menn af 538 í heild­ina en Alaska og Norður-Dakóta eru hvort um sig með þrjá kjör­menn,“ segir í grein Odds. 

Í grein Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðinu í dag segir að Bandaríkin séu víðfeðmt land sem nær yfir sex tímabelti og því verði kjörstöðum ekki öllum lokað á sama tíma.

„Fyrstu ríkin munu loka kjörstöðum sínum á miðnætti að íslenskum tíma, þar á meðal Georgía, og þrjú ríki til viðbótar, Norður-Karólína, Ohio og Vestur-Virginía, gera það hálftíma síðar. Þar sem mjótt er á mununum í tveimur fyrrnefndu ríkjunum gæti niðurstaðan í þeim gefið ágæta vísbendingu um í hvaða átt stefnir, liggi hún á annað borð fyrir.

Joe Biden á fundi í Pittsburgh í gær.
Joe Biden á fundi í Pittsburgh í gær. AFP

Klukkan eitt að íslenskum tíma verður hins vegar kjörstöðum lokað í bæði Pennsylvaníu og Flórída, og klukkutíma síðar í Arizona og Texas, þar sem kjörsókn hefur farið fram úr öllum helstu væntingum manna. Klukkan fjögur loka svo kjörstaðir á vesturströnd Bandaríkjanna, en ríkin þar eru öll talin örugg fyrir demókrata og Joe Biden.

Venjulega myndi þá liggja fyrir með nokkurri vissu hver hefði unnið kosningarnar, en mismunandi reglur eru í hverju ríki um talningu póstatkvæða, hversu lengi eftir kjördag þau mega berast, og hvaða skilyrði þau þurfa að uppfylla til þess að vera talin gild.

Þannig mega póstatkvæði í Kaliforníu berast allt að 17 dögum eftir að kjördegi lýkur, og vera talin gild, svo lengi sem þau voru póstlögð fyrir kjördag. Það er ýtrasta dæmið, en flest hin ríkin taka við greiddum atkvæðum sem berast allt að þremur, sjö eða tíu dögum eftir að kjörstöðum er lokað,“ segir enn fremur í Morgunblaðinu í dag.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka