Allt á suðupunkti vestanhafs

AFP

Forsetaframbjóðandi demókrata, Joe Biden, lýsti því yfir áðan að hann væri að vinna kosningarnar en aðeins nokkrum mínútum síðar svaraði forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, að hann væri að sigra og sakaði andstæðing sinn um að reyna að stela atkvæðum. Á sama tíma er hnífjafnt og ómögulegt að segja til um hvor þeirra er raunverulegur sigurvegari. Nokkuð sem jafnvel kemur ekki í ljós fyrr en eftir einhverja daga.

Biden ávarpaði stuðningsmenn sína í Wilmington, Delaware, skömmu eftir miðnætti að staðartíma (á sjötta tímanum í morgun að íslenskum tíma). Að sögn Bidens er hann sannfærður um að fara með sigur af hólmi í forsetakosningunum sem eru sennilega með þeim tvísýnustu og mest spennandi í langan tíma. „Glatið ekki trúnni, félagar. Við ætlum að vinna þær,“ sagði Biden á sama tíma og hann varaði stuðningsmenn sína við því að biðin gæti orðið löng. Ástæan er einföld, vegna kórónuveirufaraldursins greiddu tugmilljónir atkvæði að heiman og sendu með pósti. Talning þessara atkvæða er tímafrek og því útlit fyrir að langur tími líði þar til talningu lýkur. 

Atkvæði talin.
Atkvæði talin. AFP

Trump var fljótur að stökkva á Twitter og svara Biden. Aðeins nokkrum sekúndum síðar skrifaði hann að stórsigur væri í sjónmáli en þeir, það er demókratar, væru að reyna að stela kosningunum. Stórsigur, skrifaði hann á Twitter. 

Sannfærður um sigur í Georgíu

Trump, sem fylgist með kosningunum ásamt starfsfólki sínu í Hvíta húsinu, ávarpaði bandarísku þjóðina á áttunda tímanum í morgun og tók fram að hann hefði aldrei haldið blaðamannafund svo seint en klukkan var 2:20 að næturlagi í höfuðborg Bandaríkjanna. Hann ásakaði síðan demókrata um að reyna að útiloka stuðningsmenn hans. Þetta yrði ekki liðið. 

Trump fagnaði sigri í Flórída og Texas en enn er beðið eftir niðurstöðum úr mikilvægum ríkjum í miðvesturhluta landsins. „Það er líka á hreinu að við sigruðum í Georgíu,“ sagði Trump. „Þeir ná okkur ekki.“

Hann segist sannfærður um sigur í Pennsylvaníu en ekki er vitað hvenær lokatölur eru væntanlegar þaðan og þrátt fyrir að Trump sé sannfærður um sigur þar er alls ekki hægt að segja til um það á þessari stundu. 

Fjölmiðlar vestanhafs voru líka fljótir til að fara yfir ræðu Trumps og bera margt til baka sem hann sagði, það er yfirlýsingar hans eru falsfréttir enda langt í að niðurstaða kosninga liggi fyrir. 

Ekkert frekar en það er hægt að segja til um það hvor þeirra á eftir að eyða næstu fjórum árum í Hvíta húsinu. Trump hafði betur í Flórída og Texas en Biden náði Virginíu og átti auðvelt með New Hampshire þar sem Hillary Clinton rétt marði sigur fyrir fjórum árum. 

Bandarískir fjölmiðlar eru ekki á einu máli um stöðu mála og stjórnmálaskýrendur hafa í alla nótt reynt að spá í spilin. Jafnvel getur farið svo að niðurstaða fáist ekki nema fyrir dómstólum. 

Donald Trump ávarpaði bandarísku þjóðina á áttunda tímanum í morgun.
Donald Trump ávarpaði bandarísku þjóðina á áttunda tímanum í morgun. AFP

Hvað með Arizona?

Svo eru alls konar vafaatriði. Til að mynda birti Fox News frétt um að Biden hefði haft betur í Arizona en enginn annar fjölmiðill hefur staðfest þetta. Ef satt reynist verður það þungt á vogarskálum Bidens. Ríkisstjórinn í Arizona, Doug Ducey, segir að að enn sé allt of snemmt að kynna niðurstöður kosninganna þar en hann er repúblikani og Trump fór með sigur af hólmi þar fyrir fjórum árum.

Eftir að niðurstaðan í Flórída varð ljós er greinilegt að ríki eins og Pennsylvanía og Georgía skipta gríðarlega miklu máli. Talning gengur eins og áður sagði hægt út af póstatkvæðum og talið að niðurstaðan verði ekki endanlega ljós fyrr en eftir einhverja daga. Trump hefur harðlega gagnrýnt þessa aðferð við að greiða atkvæði og nú hótar hann því að fara með talningu atkvæða fyrir hæstarétt. Dómstól þar sem Trump skipaði nýverið nýjan dómara, Amy Co­ney Bar­rett, í stað Ruth Bader Gins­burg sem féll frá í haust 87 ára að aldri. 

Talning atkvæða er tímafrek.
Talning atkvæða er tímafrek. AFP

Trump og upplýsingaóreiðan

Trump heldur því fram að póstatkvæðin séu ólögleg, en ýmislegt bendir til þess að demókratar séu með meirihluta atkvæða þar. Þetta er hins vegar upplýsingaóreiða hjá forseta Bandaríkjanna sem segir að aðeins atkvæði sem séu talin á kjördag eigi að teljast með. „Ekki er hægt að greiða atkvæði eftir að kjörstöðum er lokað!“ skrifaði hann á Twitter í gær og merkti færsluna sem upplýsingaóreiðu.

En hvað með öldungadeildina? Fulltrúadeildin er orðin ljós, demókratar halda meirihluta sínum þar líkt og fullvíst var talið fyrir kjördag. En vonir um að hafa betur í öldungadeildinni eru að dofna. Til að mynda er talið að demókratar tapi þingmanni í Arizona en vitað er að þeir náðu einum af repúblikönum í Colorado.

Joe Biden ásamt eiginkonu sinni, Jill, á fundi með stuðningsmönnum …
Joe Biden ásamt eiginkonu sinni, Jill, á fundi með stuðningsmönnum í nótt. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert