Joe Biden hefur nú þegar fengið fleiri atkvæði en nokkur forsetaframbjóðandi í sögu Bandaríkjanna. Þrátt fyrir það er staðan enn óljós, hvort verður Donald Trump áfram forseti Bandaríkjanna eða tekur Biden við embættinu í janúar 2021.
Enn er beðið fregna af talningu atkvæða í nokkrum lykilríkjum Bandaríkjanna. Joe Biden fór með sigur af hólmi í Michigan og Wisconsin og hefur því færst nær því að ná 270 kjörmönnum. Aftur á móti segir Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að rangt hafi verið haft við í kosningunum og hefur framboð hans leitað til dómstóla í þeirri von að talningu atkvæða yrði hætt.
Talningafólk víðsvegar um Bandaríkin hefur ekki látið þetta stöðva sig og situr enn við, aðra nóttina í röð. Skýringin á því hversu hægt gengur er gríðarleg þátttaka í utankjörfundaatkvæðagreiðslu, ekki síst atkvæði sem berast með pósti.
Ef Arizona er talin með þá er Biden kominn með 264 kjörmenn en Trump 214, samkvæmt talningu AFP-fréttastofunnar. Þetta er hins vegar ekki að fullu staðfest og stuðningsmenn Trumps hafa safnast saman fyrir utan skrifstofu sýslumanns Maricopa þar sem talning fer fram. Stuðningsmennirnir eru ósáttir við stöðu mála og eru margir hverjir vopnaðir. Fox fréttastofan lýsti því yfir fyrir meira en sólarhring að Biden hafi unnið í Arizona og AP-fréttastofan var á sama máli. Aðrir fjölmiðlar hafa ekki viljað taka afstöðu þar sem enn er talningu ekki lokið þrátt fyrir nauman meirihluta Biden.
Til þess að ná 270 kjörmönnum verður Biden að bæta við sig sex kjörmönnum í Nevada en þar er hann með örlítið forskot á Trump. Eða það sem myndi koma Biden enn betur - að fá meirihluta í Georgíu eða Pennsylvaníu. En það verður væntanlega ekki ljóst fyrr en um helgina hvernig atkvæði falla í Pennsylvaníu vegna póstatkvæða. Trump er með meirihluta í Alaska og eins þykir líklegt að Norður-Karólína falli honum í skaut eins og staðan er núna.
Biden ávarpaði stuðningsmenn sína í gærkvöldi og þrátt fyrir að hafa ekki lýst sigri var ræðan í landsföðurlegum tón. Að sameina þjóðina í stað sundrungar. „Það sem tengir okkur saman sem Bandaríkjamenn er svo miklu sterkara en það sem getur sundrað okkur.“
Trump er aftur á móti ósáttur við gang mála og segir að hann muni ekki sætta sig við þær niðurstöður sem nú liggja fyrir. Hann talar um kosningasvindl í Michigan án þess að fara nokkrar sönnur fyrir því.
Framboð Trumps hefur leitað til dómstóla í Michigan, Pennsylvaníu og Georgíu og krafist endurtalningar í Wisconsin.
Samkvæmt AP fréttastofunni þá þarf Biden aðeins eitt ríki til viðbótar til að geta lýst yfir sigri.