Yfirmaður eftirlitshópsins sem kosningaeftirlit Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sendi til að fylgjast með bandarísku forsetakosningunum sakar forsetann Donald Trump um „grófa misnotkun á embætti sínu“, eftir að hann hélt því fram að demókratar væru að svindla og heimtaði að talningu atkvæða yrði hætt í ákveðnum ríkjum.
„Það óhugnanlegasta var að með allri forsetalegu umgjörð Hvíta hússins, það er, með öllum sínum valdatáknum, þá kallaði æðsti yfirmaður bandaríska hersins (e. commander-in-chief) eftir því að talningu yrði hætt vegna síns meinta sigurs,“ sagði yfirmaðurinn, Micheal Link, í samtali við þýska dagblaðið Stuttgarter Zeitung.
„Þetta var gróf misnotkun á embætti,“ sagði hann og bætti við að fullyrðingar Trumps um leynimakk demókrata ættu við engin rök að styðjast.