Sú fordæmalausa staða hefur komið upp að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ásakað demókrata um kosningasvindl í Pennsylvaníu. Í ljósi fyrirséðra málaferla má leiða líkur að því að niðurstaða forsetakosninganna í Bandaríkjunum gæti dregist fram í janúar. Niðurstaða hæstaréttar gæti snúið niðurstöðu kosninga.
Þetta er meðal þess sem Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is um forsetakosningarnar.
Rudy Giuliani, lögmaður Trumps flaug til Pennsylvaníu í gær þar sem hann ásakaði demókrata um kosningasvindl. „Það er ekki hægt að líta á það öðruvísi en að það sé mjög alvarleg ásökun, þegar það kemur beinlínis frá forseta Bandaríkjanna, því þarna er lögmaðurinn að tala í umboði forsetans,“ segir Baldur.
„Trump var búinn að sýna spilin fyrir kosningar hvað það varðar að ef hann teldi brögð í tafli þá myndi hann fara með kosningaúrslitin fyrir dómstóla,“ segir Baldur.
Fulltrúar repúblikana eru þegar búnir að kæra talningu atkvæða og meðhöndlun kjörgagna í nokkrum ríkjum. „Það liggur ljóst fyrir að talningin, meðhöndlun atkvæða og kosninganiðurstöður í einstaka ríkjum mun fara fyrir dómstóla,“ segir Baldur.
Flest af málunum lúta að því hvort telja eigi utankjörfundaratkvæði sem berast með pósti. Atkvæði sem greidd hafa verið með þessum hætti hafa nær ávallt í sögulegu samhengi fallið með yfirgnæfandi meirihluta til demókrata í flestum ríkjum.
Samkvæmt kosningalögum í Pennsylvaníu er hægt að telja atkvæði sem berast með pósti allt að þremur dögum eftir kjördag, að því gefnu að bréf séu dagsett fyrir kjördag.
Að sögn Baldurs reyndu repúblikanar fyrir kosningar að kæra það að atkvæði sem myndu berast eftir kjördag teldust. Ríkisdómstóll Pennsylvaníu úrskurðaði um að atkvæðin ættu að teljast með.
Í máli Giuliani í gær kemur hins vegar fram að kæran byggist á því að fulltrúar þeirra hafi ekki fengið að fylgjast með því hvort kjörseðlar sem borist hafa með pósti hafi verið löglegir. Hvort þeir séu rétt dagsettir, hvort þeir séu stimplaðir rétt og fleiri formsatriði. „Fréttaskýrendur fullyrða að repúblikanar hafi ekki neinar sannanir fyrir sínum fullyrðingum. Giuliani hefur reyndar sagt að hann muni koma síðar með sannanir fyrir þessu,“ segir Baldur.
Samhliða hafa repúblikanar krafist endurtalningar í Wisconsin þar sem Biden hafði betur með um 20 þúsund atkvæðum eða 0,6% mun. Í mörgum ríkjum er sú regla viðhöfð að ef munurinn er undir 1% þá má krefjast endurtalningar og hefur það margoft gerst í sögulegu samhengi. Hins vegar er um 2% munur í Michigan og ekki forsenda til endurtalningar þar.
„Í Pennsylvaníu verður ekki litið á málin öðruvísi en svo að repúblikanar sjái fram á að tapa kosningunum þar og jafnvel Georgíu líka. Svo virðist vera fólk í kringum forsetann sé að fara á taugum. Atkvæðin sem eftir á að telja eru frá héruðum þar sem demókratar hafa sterka stöðu. Fyrir fjórum árum fengu demókratar um 80% fylgi í sumum þessara héraða og ef það verður raunin þá gæti Biden tekið Georgíu líka,“ segir Baldur.
Hann segir að repúblikanar séu í startholunum að höfða einnig mál í þeim ríkjum þar sem mjótt er á mununum, í Wisconsin, Arizona, Michigan, Georgíu og jafnvel Nevada.
Baldur segir að svona málaferli gætu tekið langan tíma. Endurtalning gæti tekið nokkrar vikur, svo fer málin fyrir ríkisdómstóla áður en málin fara fyrir hæstarétt Bandaríkjanna. „Það gæti vel farið svo að niðurstaðan muni dragast fram í desember og jafnvel fram í janúar,“ segir Baldur.
Baldur segir að það sé fordæmalaus staða að flokkur hafi ekki viðurkennt niðurstöðu kosninga. Bandaríkjamenn hafi til þessa verið fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að valdaskiptum undanfarnar tvær aldir. „Trump er í raun að setja þetta í uppnám. Menn hafa ekki talað svona í Bandaríkjunum áður,“ segir Baldur.
Í Hæstarétti Bandaríkjanna eru sex dómarar af níu sem þykja tilheyra hinum íhaldssama armi réttarins en þrír þykja vera frjálslyndir.
„Þrír dómarar hafa verið skipaðir af Trump og þrír dómarar voru í lögmannsliði George Bush yngri árið 2000 þegar hann vann kosningarnar fyrir hæstarétti árið 2000. Það gæti vel gerst að niðurstaðan verði sú að hæstiréttur ákvarði t.a.m. að atkvæði sem berast með pósti eftir að kjörstöðum lokar í Pennsylvaníu séu ólögleg þá hafi það þau áhrif að Trump fær meirihluta í sumum þessara lykilríkja. Það muni einfaldlega snúa niðurstöðum kosninganna,“ segir Baldur