Viðar Guðjónsson
Margir furða sig á því hvers vegna ekki er búið að tilkynna Joe Biden sem sigurvegara kosninganna. Helgast það af því að Í Bandaríkjunum er ekki atkvæðagreiðsla á landsvísu heldur fer hún fram í hverju ríki fyrir sig. Er horft til helstu fjölmiðla sem notast við greiningu kosningagagna áður en sigurvegari er tilkynntur.
Fyrr í dag lýsti tölfræðigreiningafyrirtækið Decision Desk Joe Biden sem sigurvegara kosninganna. Fjölmiðlar á borð við Vox og Business insider nýta sér þjónustu fyrirtækisins og hafa því lýst yfir sigri Biden.
Aðrir fjölmiðlar á borð við Associated Press, sem gjarnan hefur verið horft til sem þann áreiðanlegasta í þessum efnum, hafa þann háttinn á að bíða þar til nær tölfræðilegur ómöguleiki er á öðrum úrslitum en þeim sem munu verða.
Fræðilega á Trump því enn möguleika á meðan eftir á að telja atkvæði í ríkjunum þar sem enn á eftir að greina frá staðfestum úrslitum. Hins vegar þykir liggja í augum uppi að demókratar eigi enn eftir að auka forskot sitt í ríki á borð við Pennsylvaníu. Þau atkvæði sem á eftir að telja þar koma flest úr Fíladelfíuborg þar sem demókratar hafa yfirgnæfandi sterka stöðu. Vinni Biden Pennsylvaníu þarf hann ekki á Nevada, Georgíu og Arizona að halda en þar er hvað naumasti munurinn á milli frambjóðendanna Biden í vil.