Trump neitar að gefast upp

Donald Trump neitar að viðurkenna ósigur í kosningum.
Donald Trump neitar að viðurkenna ósigur í kosningum. AFP

Fram­boð Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta hef­ur birt yf­ir­lýs­ingu þar sem fram kem­ur að hann neiti að viður­kenna ósig­ur. Þvert á móti er sagt að re­públi­kan­ar muni berj­ast áfram um Georgíu, Nevada, Arizona og Penn­sylvan­íu. 

Í yf­ir­lýs­ing­unni seg­ir: „Kosn­ing­un­um er ekki lokið. Rang­ar spár um sig­ur Joe Biden eru byggðar á úr­slit­um úr fjór­um ríkj­um sem ekki sér fyr­ir end­ann á hvernig munu fara. Biden treyst­ir á þessi ríki til að gera falskt til­kall til Hvíta húss­ins, en þegar kosn­ing­un­um lýk­ur mun Trump ná end­ur­kjöri.“

Fram kem­ur í yf­ir­lýs­ing­unni að búið sé að biðja um end­urtaln­ingu í Georgíu þar sem re­públi­kan­ar séu þess full­viss­ir að ógild at­kvæði séu í póst­kosn­ing­unni. Þá er kvartað und­an því að full­trú­ar á veg­um flokk­anna hafi ekki fengið nægj­an­leg­an aðgang til þess að fylgj­ast með taln­ingu at­kvæða í Penn­sylvan­íu.

Full­yrt er enn frem­ur að þúsund­ir póst­atkvæða í Nevada beri að ógilda.

Að auki sé Trump á góðri leið með að vinna í Arizona þrátt fyr­ir að Fox News og Associa­ted press hafi þegar lýst yfir sigri Biden í fylk­inu.    

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert