„Ætlum að vinna þennan slag“

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, er hársbreidd frá því að takast …
Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, er hársbreidd frá því að takast ætlunarverkið. AFP

„Við ætlum að vinna þennan slag með skýran meirihluta þjóðarinnar á bak við okkur.“ Þetta sagði Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, er hann ávarpaði bandarísku þjóðina úr heimabæ sínum Delaware í nótt.

Talning atkvæða stendur enn yfir í nokkrum ríkjum, en forystan í Pennsylvaníu og Georgíu gerir það að verkum að allt útlit er fyrir að hann standi uppi sem sigurvegari. Demókratinn hefur tryggt sér 253 kjörmenn af þeim 270 sem þarf. Honum nægir að tryggja sér sigur í Pennsylvaníu (20 kjörmenn) til að standa uppi sem sigurvegari. 

Raunar hefur tölfræðiteymi Decision Desk HQ, sem margir miðlar nýta, þegar lýst sigri Bidens. Sjálfur hefur hann þó ekki enn lýst sigri. „Við verðum að vera róleg og þolinmóð, leyfa talningunni að halda áfram,“ sagði Biden. „Ég vona að ég tali aftur við ykkur á morgun.“ 

Stuðningmenn Bidens í Pennsylvaníu.
Stuðningmenn Bidens í Pennsylvaníu. AFP

Stuðningsmenn hans eru þó þegar farnir að fagna. Í Fíladelfíu sáust stuðningsmenn á götum úti með skilti sem á stóð „Fólkið hefur talað“. Skiltin, eins og jafnan í bandarískum stjórnmálum, eru óaðfinnanleg verk grafískra hönnuða. Það er aldrei tússpenni á pappaspjaldi í Bandaríkjunum.

Þá hefur lífvarðaþjónusta Bandaríkjaforseta (Secret Service) aukið öryggisgæslu í kringum Biden og sent sérstaka lífvarðasveit til höfuðstöðva framboðsins í Delaware.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert