Joe Biden sagður kjörinn forseti Bandaríkjanna

Joe Biden verður 46. forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden verður 46. forseti Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden hefur verið lýstur kjörinn forseti Bandaríkjanna af öllum helstu fréttaveitum vestanhafs. Hafa þær allar allar lýst yfir sigri hans í þeim ríkjum sem þarf til að tryggja sér tilnefninguna, eftir að ljóst varð að hann myndi hafa betur í kosningunum í Pennsylvaníu.

Hann hefur nú tryggt sér 273 kjörmenn, en 270 nægja fyrir útnefningu.

Það skal þó tekið fram að kærur hafa borist vegna kosninganna frá repúblikönum og eiga dómstólar eftir að taka ákvörðun um hvort einhver þeirra mála verði tekin fyrir eða vísað frá. 

Biden er 77 ára. Hann tekur við embætti forseta 20. janúar og verður þar með elsti maðurinn til að gegna þessu valdamesta embætti heims.

Biden þótti alla tíð sigurstranglegur gegn Donald Trump, sitjandi forseta, sem hefur verið umdeildur á forsetastóli. Mældist Biden jafnan með töluvert forskot í barátturíkjum fyrir kosningarnar og hafði verið spáð jafnvel nokkuð þægilegum sigri.

Annað kom þó á daginn. Um leið og kjörstöðum var lokað að kvöldi þriðjudags og fyrstu tölur fóru að berast varð ljóst að kosningarnar yrðu tvísýnni en gert var ráð fyrir.

Um það leyti sem Trump forseti hafði tryggt sér sigur í Flórída höfðu allar vonir um stórsigur Bidens runnið út í sandinn.

Leit illa út um tíma fyrir Biden

Á kosninganóttu fóru svo að renna tvær grímur á stuðningsmenn.

Trump mældist með meiri stuðning í mikilvægum sveifluríkjum, þar með talið í Pennsylvaníu. Þegar morgnaði vænkaðist hagur Bidens þó eftir því sem fleiri utankjörfundaratkvæði voru talin. Vitað var fyrir kosningar að talning utankjörfundaratkvæða tæki lengri tíma en annarra og stuðningsmenn Bidens væru líklegri til að hafa greitt atkvæði með þeim hætti.

Sigrar í Michigan og Wisconsin – ríki sem Trump vann óvænt fyrir fjórum árum – komu Biden langleiðina. Úrslitin réðust þó ekki strax. Miðvikudagur og fimmtudagur liðu án þess að sigurvegari væri lýstur og það var ekki fyrr en í dag, á þriðja degi eftir kjördag, sem úrslitin þóttu að fullu ljós.

Tvívegis áður sóst eftir embættinu

Joe Biden fæddist í Scranton í Pennsylvaníu í nóvember 1942. Hann gekk ungur í Demókrataflokkinn og varð öldungadeildarþingmaður aðeins 31 árs, en því umbætti gegndi hann um 35 ára skeið.

Biden hefur tvívegis áður sóst eftir forsetaembættinu, 1988 og 2008. Í hvorugt skiptið tókst honum þó að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni flokks síns. Í síðara skiptið laut hann í lægra haldi fyrir Barack Obama, sem síðar tilnefndi hann sem varaforsetaefni sitt.

Þeir félagar hlutu kosningu og var Biden því varaforseti Bandaríkjanna frá 2009 til árins 2017. 

Kamala Harris er næsti varaforseti Bandaríkjanna. Hún verður fyrsta konan …
Kamala Harris er næsti varaforseti Bandaríkjanna. Hún verður fyrsta konan til að gegna embættinu. AFP

Verði forseti allra Bandaríkjamanna

Biden hefur bæði sagt nú í aðdraganda úrslitanna og frá því kosningabaráttan hófst að hann ætli að vera forseti allra Bandaríkjamanna, ekki bara þeirra sem kysu hann.

Þá hefur hann heitið því að koma Bandaríkjunum aftur í Parísarsamkomulagið sem Trump dró Bandaríkin úr, sem frægt varð. Til viðbótar við það vill Biden kolefnisjafna allan útblástur Bandaríkjanna fyrir árið 2050 og hætta útgáfu leyfa til vinnslu jarðgass og olíu á landi í ríkiseigu.

Hann hefur sagst vilja hækka skatta á tekjuhærri hópa og gera heilbrigðislöggjöf Obama-stjórnarinnar, sem miðaði að því að veita ótryggðum heilbrigðistryggingu, meiri að umfangi, kerfi sem kennt hefur verið við Obamacare.

Hefur hann boðað að aðeins þeir sem hafi hærri árslaun en 400.000 dali (jafngildir um 4,7 milljónum kr. á mánuði) muni greiða hærri skatt samkvæmt áætlun hans. Þá vill Biden hækka lægstu laun úr 7,25 dölum í 15 dali á tímann – stefnumál sem Bernie Sanders, keppinautur hans um útnefningu demókrata, kom rækilega inn í umræðuna.

Ungir stuðningsmenn Bidens.
Ungir stuðningsmenn Bidens. AFP

Strembin ár fram undan

Engum dylst að Biden þarf að takast á við risavaxnar áskoranir um leið og hann sver embættiseið hinn 20. janúar næstkomandi. Á þriðja hundrað þúsund Bandaríkjamanna hafa látist af völdum kórónuveirunnar og tugmilljónir starfa hafa glatast.

Þá stefnir allt í að Repúblikanaflokkurinn haldi meirihluta sínum í öldungadeild Bandaríkjaþings. Álitsgjafar og spekúlantar vestra segja að það stefni í allsherjarþrátefli næstu árin.

Þá er bandarískt þjóðfélag ef til vill tvístraðra en nokkru sinni fyrr. Eins og áður sagði hefur Biden fullyrt að hann verði forseti allra Bandaríkjamanna, en koma mun síðar í ljós hvort þeim finnist hann vera forsetinn þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka