„Við megum hvergi hika eins og þróunin er nú. Við erum tilneydd að berja smitið niður áður en það hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir eldra fólk, viðkvæma og heilbrigðiskerfið okkar. [...] Við höfum ekki tíma til að bíða lengur, þetta er alvara,“ sagði Raymond Johansen, formaður borgarráðs Óslóar, í gær þegar hann kynnti enn eina breytinguna á sóttvarnareglum höfuðborgarinnar.
„Við setjum nú í gildi félagslega lokun Óslóar,“ sagði Johansen og boðaði svo breytingar sem taka gildi á miðnætti á mánudagskvöld, 9. nóvember, og eru að hluta afturhvarf til þeirra tíma sem borgarbúar fengu að upplifa á vordögum.
Síðustu daga hafa 545 ný smit greinst í Ósló, þar af 129 í gær, föstudag, og er nú svo komið að 5,2 prósent veiruskimana í borginni reynast jákvæð. Í landinu öllu greindust 610 ný smit í gær og hefur athygli beinst sérstaklega að Ósló, Bergen og Drammen, þar sem ástandið er einna verst, en alls fjölgar smitum í 68 sveitarfélögum í Noregi.
Meðal þess sem gerist í Ósló á miðnætti á mánudag er að áfengissala verður bönnuð með öllu á veitingahúsum, eins og gert var í rúman mánuð í vor. Veitingamönnum leyfist að hafa staði sína opna en ekki veita þar áfengi.
Þá loka líkamsræktarstöðvar aftur, íþróttahús, sundstaðir, kvikmyndahús, leikhús og allir staðir sem reka menningartengda starfsemi, nema bókasöfn. Allar samkomur innandyra, aðrar en á heimilum, verða bannaðar, þar á meðal brúðkaups- og fermingarveislur. Jarðarfarir njóta undanþágu en þar gilda þó fjöldatakmarkanir, 20 manns.
Skylda til að bera hlífðargrímu tekur nú einnig til farþega í leigubifreiðum og ökumanns, verslunum og verslunarmiðstöðvum verður skylt að halda úti öryggisvörðum sem gæta þess að tveggja metra millibil sé milli allra viðskiptavina sem ekki búa undir sama þaki auk þess sem allir framhaldsskólar í Ósló fara á svokallað rautt stig frá mánudagsmorgni, sem táknar að nemendur stundi námið sem mest á heimilum sínum. Til skoðunar er að sama stig taki gildi í barnaskólum næstu daga á eftir.
Í Bergen taka svipaðar reglur gildi, þótt þar verði áfengissala veitingahúsa ekki bönnuð með öllu, en henni ber að ljúka klukkan 21:30 öll kvöld og stöðum ber skylda til að loka hálftíma síðar, klukkan 22:00. Þessar reglur taka gildi í Bergen í dag.
„Ég skil þá vel sem velja að hafa opið hjá sér, málið snýst um að halda rekstrinum gangandi og sýna viðskiptavinunum hollustu,“ segir Alexander Arnø, veitingamaður í Bergen, í samtali við norska dagblaðið VG, en hann rekur öldurhúsin Stereo, Tempotempo, Nedre Nygård og Okidoki í höfuðstað Vestur-Noregs.
Sjálfur segist hann gjarna vilja halda dyrum sinna staða opnum, en kjósi að gera það ekki þar sem það sé í svo hróplegu ósamræmi við stefnu norskra stjórnvalda í sóttvarnamálum, að samviska hans bjóði honum það hreinlega ekki.
„Erna [Solberg forsætisráðherra] gaf öllum mjög skýr skilaboð um að halda sig heima,“ segir Arnø og vísar til blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar fyrr í vikunni þar sem Solberg sagði einmitt það: „Haldið ykkur heima.“
„Minn bransi gengur út á að vera félagslyndur. Telji ríkisstjórnin að við eigum ekki að hittast þá táknar það í raun ekkert annað en að við eigum að loka,“ segir vertinn.
Líkamsræktarkeðjan SATS lokar alls 53 stöðvum í Ósló og Bergen og er gert ráð fyrir að lokað verði í tvær vikur í Bergen, þrjár í Ósló.
„Við förum auðvitað eftir þeim reglum sem yfirvöld setja okkur, en þær geta haft afleiðingar fyrir lýðheilsuna, líkamlega sem andlega,“ segir Malin Selander, upplýsingafulltrúi SATS, í samtali við dagblaðið Dagens Næringsliv.
Hún segir keðjuna nú fjölga ýmiss konar æfingatímum sem varpað er út á lýðnetið og vonast til þess að með því segi færri upp aðild sinni að stöðvunum.
„Við leggjum núna megináherslu á að halda okkar viðskiptavinum virkum gegnum tíma á netinu og vonandi fáum við að auki leyfi til að bjóða upp á tíma utanhúss,“ segir Selander. Þótt eingöngu stöðvar í Ósló og Bergen loki nú er ekki örgrannt um að SATS neyðist til að loka dyrum sínum í fleiri norskum bæjum þar sem smitum fjölgar sem aldrei fyrr, svo sem í Drammen.
„Við tökum bara einn dag í einu. Ef við getum haft opið gerum við það, en við erum til reiðu að bregðast við komi boð frá stjórnvöldum um að loka víðar,“ segir upplýsingafulltrúinn að lokum.