Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 11:30 að staðartíma í Philadelphiu, en það er klukkan 16:30 að íslenskum tíma. Þetta kemur fram í stuttu tísti sem hann setti inn á twitter áðan.
Af þeim fimm barátturíkjum þar sem enn á eftir að telja öll atkvæði leiðir keppinautur hans um forsetaembættið, Joe Biden, í fjórum ríkjanna, en Trump í einu. Leiðir Biden í Pennsylvaníu, Georgíu, Arizona og Nevada, en Trump í Norður-Karólínu.
Allra augu eru á Pennsylvaníu, ríkinu með 20 kjörmenn. Þar hafa um 96% atkvæða verið talin og hefur Biden 28 þúsund atkvæða forskot, eða sem nemur 0,5 prósentustigum. Þegar fyrstu atkvæði bárust hafði Trump gott forskot, en eftir því sem utankjörfundaratkvæðin fóru að streyma inn minnkaði forskotið hratt og það var loks í gær sem Biden tók fram úr forsetanum.
Hátt í 200 þúsund atkvæði standa þar eftir ótalin. Mörg þeirra koma frá svæðum þar sem demókratar hafa notið mjög góðs fylgis, til að mynda í Philadelphiu og í Pittsburgh. Enn furða menn sig á að miðlar hafi ekki lýst hann sigurvegara, en hingað til hefur tölfræðiteymi Decision Desk HQ lýst Biden sigurvegara en aðrir hafa ekki fylgt í fótspor þeirra. Sennilega hafa þeir þó gildar ástæður. Að lýsa yfir sigri frambjóðanda er stór ákvörðun.
Fyrr í dag setti Trump inn fjögur önnur tíst þar sem hann ítrekaði fyrri skilaboð sín um að svindl hefði átt sér stað í kosningunum. Sagði hann að tugir þúsunda ólöglegra atkvæða hefðu borist eftir klukkan átta á kjördag og að þau atkvæði væru að breyta úrslitunum í Pennsylvaníu og öðrum barátturíkjum.
Twitter hefur ritskoðað þessi tíst hans, en það gerir miðillinn þegar hann telur að um sé að ræða rangfærslur hjá forsetanum.