Joe Biden, forsetaefni Bandaríkjanna, sagðist í sigurræðu sinni í gær ætla að velja fremstu vísindamenn og sérfræðinga á sínu sviði í kórónuveiruteymi ríkisstjórnarinnar.
Hann mun kynna hóp „leiðandi vísindamanna og sérfræðinga“ á morgun sem mun hjálpa til við svokallaða „Biden-Harris-áætlun“ sem er ætlað að létta undir með þeim sem verst hafa komið út úr veirufaraldrinum og efla baráttuna gegn kórónuveirunni.
Þótt hópurinn verði kynntur í heild sinni á morgun hefur kosningastjóri Bidens nú þegar upplýst um formenn hans, en dr. Vivek Murthy, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, og dr. David Kessler, fyrrverandi forstöðumaður bandaríska lyfja- og matvælaeftirlitsins, munu leiða hópinn í sameiningu.
Þessi orð Bidens gefa það til kynna að forsetaefnið hyggist setja baráttuna við kórónuveirufaraldurinn í forgang, en fráfarandi forseti, Donald Trump, hefur ítrekað verið sakaður um að virða ráðleggingar veirusérfræðinga og heilbrigðisstarfsfólks að vettugi. Trump er sagður hafa gripið til of vægra aðgerða of seint, en forsetinn kallaði Anthony Fauci, sóttvarnalækni Bandaríkjanna og aðalráðgjafa ríkisstjórnarinnar í kórónuveirumálum, „hálfvita“ í símtali við starfsfólk sitt.
Eins og flestir landsmenn vita hafa vísindamenn og sérfræðingar verið fremstir í flokki í baráttu Íslands gegn kórónuveirunni og virðist það hafa skilað sér í auknu trausti almennings á sóttvarnaaðgerðum, en nánast allir aðspurðra í nýlegri könnun Maskínu treystu þríeykinu (landlækni, sóttvarnalækni og almannavörnum), eða rúm 95%.