Fleiri kórónuveirusmit í Hvíta húsinu

Starfsmannastjóri Trumps hefur greinst með veiruna ásamt fleiri starfsmönnum Hvíta …
Starfsmannastjóri Trumps hefur greinst með veiruna ásamt fleiri starfsmönnum Hvíta hússins og ráðgjafa Trumps. AFP

Í gær var greint frá því að Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, hefði greinst með kórónuveiruna. Í dag hafa fimm aðrir starfsmenn og kosningaráðgjafi Trumps greinst með veiruna.

Samkvæmt New York Times greindist kosningaráðgjafinn Nick Trainer með veiruna, auk fjögurra annarra starfsmanna í Hvíta húsinu sem eru nánir Trump-stjórninni.

Faraldurinn hefur verið á uppleið í Bandaríkjunum undanfarið og mældust 132.700 tilfelli á föstudaginn, en það er mesti fjöldi hingað til. Þá létust 1.220 vegna veirunnar, en það er líka mesti fjöldi sem hefur gert það á einum degi hingað til.

Donald Trump Bandaríkjaforseti smitaðist af veirunni í október en náði …
Donald Trump Bandaríkjaforseti smitaðist af veirunni í október en náði sér af henni. AFP

Þetta er í annað skiptið sem veiran kemur upp í Hvíta húsinu, en í byrjun október, í miðri kosningabaráttunni, smituðust Donald og Melania Trump auk fjölmargra annarra samstarfsmanna Trumps og starfsmanna í Hvíta húsinu. Meðal þeirra voru Stephen Miller, aðstoðarmaður forsetans, og eiginkona hans Katie Miller, sem jafnframt er talskona Mikes Pence varaforseta. Þá greindist einnig talskona forsetans, Kayleigh McEnany, í október og þrír starfsmenn á fjölmiðlaskrifstofu Hvíta hússins.

Joe Biden tilkynnti í sigurræðu sinni í gær að kórónuveirufaraldurinn yrði hans helsta verkefni og að ráða þyrfti niðurlögum veirunnar áður en uppbygging gæti hafist að nýju. Hefur hann meðal annars sagt að á mánudaginn muni hann skipa vísindamenn í innleiðingarteymi sitt sem verði til sérstakrar ráðgjafar varðandi faraldurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert