Blaðamannafundur Rudys Giulianis, lögmanns Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, í gær hefur vakið þó nokkra athygli. Ekki aðeins fyrir það að á meðan fundinum stóð lýstu fjölmiðlar víða um heim yfir sigri mótframbjóðanda Trumps, Joes Bidens, heldur einnig fyrir staðsetninguna.
Trump boðaði til fundarins með skömmum fyrirvara snemma í gærmorgun og átti fundurinn að fara fram á Four Seasons Total Landscaping í Philadelphia í Pennsylvaníu klukkan 11:30 að staðartíma. Klukkan 16:30 að íslenskum. Eðlilega töldu margir að um væri að ræða Four Seasons-hótelið þar í bæ en hótelið greindi hins vegar strax frá því að blaðamannafundurinn hefði ekki verið bókaður hjá þeim.
Þá fóru blaðasnápar á stúfana og slógu heimilisfangið inn í leitarvélar og fundu lítið garðyrkjufyrirtæki staðsett í iðnaðarhverfi í borginni. Við hliðina á garðyrkjufyrirtækinu er klámbókabúð og beint á móti líkbrennsla.
Á bílastæðinu fyrir utan garðyrkjufyrirtækið í iðnaðarhverfinu var svo blaðamannafundurinn haldinn. Ekki hefur verið gefið út hvort einhver mistök við skipulagningu fundarins hafi valdið því að hann fór fram á þessum stað.
Giuliani lét engan bilbug á sér finna þótt fundurinn væri á heldur óvanalegum stað og talaði um hvað myndi felast í baráttu forsetans gegn því sem hann telur vera kosningasvindl.
Giuliani sagði að Trump hefði átt að vinna í Pennsylvaníu og dró fram þrjá eftirlitsmenn við kosningarnar sem sögðu að komið hefði verið í veg fyrir að þeir fengju að fylgjast vel með talningunni. Hann hét því enn fremur að Trump myndi fara í fjölda málsókna vegna talningar atkvæða.
Á miðjum fundi kom svo í ljós að allir helstu fjölmiðlar heims hefðu lýst yfir sigri Bidens og greindu blaðamenn á fundinum Giuliani frá þeim fregnum. Þá sagði Giuliani: „Ekki þessa vitleysu. Sjónvarpsstöðvarnar fá ekki að ákveða hver fer með sigur af hólmi. Dómstólarnir gera það.“