Joe Biden sagði í ávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar í nótt að þjóðin hefði talað og sigur væri í höfn með flestum atkvæðum sem forsetaframbjóðandi hefði fengið í sögunni, samtals rúmlega 74 milljónum. Sagðist hann ætla að vera forseti sem myndi sameina en ekki sundra og að hlutverk hans og ríkisstjórnarinnar væri að endurheimta og byggja upp traust og vinna virðingu til baka fyrir Bandaríkin.
Kamala Harris, varaforsetaefni Bidens, ávarpaði fundinn fyrst og kynnti Biden á sviðið. Skokkaði hann að pontunni með grímu á sér, en framboð þeirra hefur lagt mikla áherslu á sóttvarnaaðgerðir og mikilvægi þess að fólk beri grímu, ólíkt því sem Trump hefur sjálfur gert. Enda kom Biden í ávarpi sínu inn á farsóttarmál og sagði stærsta verkefnið fram undan að ná tökum á veirunni áður en hægt væri að hefjast handa við að byggja upp aftur.
Sagðist hann ætla að velja hóp vísindamanna í innleiðingarteymi sitt þar sem ekkert yrði sparað til að snúa þróun veirunnar við. Þetta var ekki eina skiptið sem hann minntist á vísindi, því hann nefndi tvisvar til viðbótar í ræðu sinni að stjórn sín yrði byggð á og myndi leggja áherslu á vísindi. Þá lagði hann einnig áherslu á baráttuna við loftslagsvandann.
Eins og hefðbundið er þegar bandarískir forsetar eru annars vegar var fjölskylda forsetans ekki langt undan og sagðist Biden vera þekktur sem eiginmaður Jill. „Ég væri ekki hér án ástar hennar og óbilandi stuðnings,“ sagði hann. Þá minntist hann á systur sína, aðra fjölskyldumeðlimi, en ekki síst son sinn sem lést fyrir nokkrum árum og tengdi þann missi við upplifun margra undanfarið að hafa misst ástvini.
Biden rifjaði einnig upp hversu stór stund þetta væri fyrir Harris, en hún er fyrsta konan sem verður varaforseti Bandaríkjanna. Þá nefndi hann einnig hversu stór stund þetta væri fyrir hana sem konu með uppruna í minnihlutahópum, en foreldrar hennar eru báðir innflytjendur, faðir hennar er frá Jamaíku og móðir frá Indlandi. Sagði hann þetta dæmi um hvað væri mögulegt í Bandaríkjunum, áður en hann varaði Harris og eiginmann hennar við því að nú væru þau orðin hluti af Biden-fjölskyldunni, hvort sem þeim líkaði betur eða verr.
Biden sagði að nú væri komið að samfélagi þar sem bakgrunnur fólks skipti ekki máli, hvorki kyn, kynþáttur, trúarskoðun né annað. Minntist hann sérstaklega á samkynhneigða og trans í ræðu sinni og sagði því næst að hann stæði þétt með samfélagi svartra sem hefðu staðið upp í kosningabaráttunni.
Í orðum Bidens mátti finna mikinn sáttatón yfir til repúblikana. Sagðist hann þannig ekki ætla að vera forseti ákveðinna ríkja, heldur allra Bandaríkjanna. Þá sagði hann að þetta væri tími þar sem fólk þyrfti aftur að fara að hlusta hvað á annað. Þannig væri kominn tími á að „hætta að taka andstæðinga okkar sem óvini, þeir eru Bandaríkjamenn“, sagði hann um þá sem væru á öðrum stað í pólitíkinni.
Biden vísaði einnig í Biblíuna þar sem talað væri um tíma til að sá, tíma til að byggja upp og tíma til að græða. „Þetta er tíminn til að græða,“ sagði hann, en orðið græða (e. heal) kom reglulega fram í ræðu hans.
Biden minntist líka á það ástand sem væri milli flokka á þinginu. Sagði að þar væri í raun búið að ákveða að flokkarnir myndu ekki vinna saman. Sagði hann þetta vera ákvörðun og ef menn gætu ákveðið svona væri hægt að ákveða að vinna saman. Sagði hann kjósendur vilja samvinnu milli demókrata og repúblikana.
Það sem skipti máli að hans mati væri að byggja Bandaríki þar sem allir hefðu möguleika. Ríki þar sem hægt væri að byggja upp mannsæmandi störf, ríki þar sem enginn væri skilinn eftir og ríki sem á sama tíma gæfi ekkert eftir.
Í lok ræðu sinnar minntist hann á orð afa síns sem hafði sagt honum að halda alltaf í vonina. Amma hans hefði reyndar gripið fram í fyrir afanum og sagt honum að hann ætti að dreifa voninni og það væri hann að gera núna.