McConnell á bandi forsetans

Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í öldungadeildinni.
Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í öldungadeildinni. AFP

Mitch McConnell, leiðtogi meirihluta repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, fylkti sér í dag á bak við Donald Trump Bandaríkjaforseta, og studdi rétt hans til þess að leggja álitamál um nýafstaðnar forsetakosningar í hendur dómstólanna. 

McConnell neitaði í umræðum í öldungadeild Bandaríkjaþings í dag að viðurkenna að Joe Biden, frambjóðandi demókrata, hefði unnið kosningarnar, en samkvæmt spám allra helstu fréttamiðla hefur Biden nú tryggt sér meirihluta í kjörmannasamkundunni sem á endanum velur hver næsti forseti verður. McConnell tjáði sig hins vegar ekki um ásakanir Trumps um að brögð hefðu verið í tafli, en sagði að forsetinn hefði allan rétt til þess að halda málinu til streitu í dómsal. 

McConnell varð þar með hæst setti repúblikaninn til þessa sem ekki hefur viðurkennt að Biden hafi haft betur í kosningunum fyrir viku, en áður höfðu Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeildinni, sem og öldungadeildarþingmennirnir Lindsey Graham og Ted Cruz hvatt Trump til þess að leita réttar síns. 

„Við skul­um ekki halda neina fyr­ir­lestra um hvernig for­set­inn ætti án taf­ar, af ánægju að samþykkja bráðabirgðaniður­stöður frá sömu aðilum og hafa eytt fjór­um árum í að neita að samþykkja gildi síðustu kosn­inga,“ sagði McConn­ell, og bætti við að hann væri vongóður um að málið yrði leyst í tæka tíð fyrir innsetningardaginn 20. janúar næstkomandi. 

Flestir repúblikanar hafa ýmist lýst yfir stuðningi við forsetann eða ekki viljað tjá sig um málið. Susan M. Collins, öldungadeildarþingmaður Maine, óskaði þó Biden til hamingju með sigurinn fyrr í dag, en hún er einungis fjórði þingmaður repúblikana til að viðurkenna kosningasigur Bidens.

Frétt New York Times.

Frétt Wall Street Journal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert