Joe Biden, kjörinn forseti Bandaríkjanna, segir það „neyðarlegt“ að Donald Trump hafi ekki enn viðurkennt ósigur í forsetakosningunum vestanhafs sem fram fóru fyrir viku.
Biden og Kamala Harris varaforsetaefni hans héldu blaðamannafund í Delaware í kvöld og þar var Biden meðal annars spurður hvaða skilaboð honum finnist Trump senda með því að viðurkenna ekki ósigur í kosningunum.
„Mér finnst þetta bara neyðarlegt hreint út sagt,“ sagði Biden. „Hvernig get ég sagt þetta af háttvísi? – Ég held að þetta muni ekki hjálpa arfleið forsetans,“ bætti Biden við.
Biden ræddi í dag við helstu þjóðarleiðtoga Evrópu, meðal annars Aneglu Merkel Þýskalandskanslara, Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands.
Spurður á blaðamannafundinum í kvöld hvað hann vilji segja við Donald Trump fráfarandi forseta sagði Biden: „Herra forseti, ég hlakka til að eiga samtal við þig.“