Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segir að lýðræði í Bandaríkjunum sé komið á bjargbrúnina að því er fram kemur í væntanlegri bók hans; A Promised Land. Bókin kemur út á þriðjudaginn.
Í útdrætti úr bókinni, sem birtist í The Atlantic, segir Obama að hann hefði ekki getað séð fyrir atburðarásina eftir að hann lét af embætti forseta í byrjun árs 2017. Þar nefnir hann til að mynda kórónuveirufaraldurinn, efnahagskreppu og baráttu gegn kynþáttafordómum sem brotist hefur út í Bandaríkjunum á árinu.
Hann sagðist þó hafa mestar áhyggjur af áskorunum sem snúa að lýðræði.
Obama sagði heiminn fylgjast með og sjá hvort tilraun Bandaríkjamanna með lýðræðið virki. Hann bætti því við að það væri uppörvandi að sjá tölur um metþátttöku í forsetakosningunum í síðustu viku.
„Hins vegar veit ég að þessar stöku kosningar munu ekki laga ástandið,“ skrifar Obama en bætir því við að hann sé fullur bjartsýni og hafi mikla trú á komandi kynslóðum.