Joe Biden, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar, greindi frá því í gær að Ron Klain yrði næsti starfsmannastjóri Hvíta hússins. Klain er sá fyrsti sem Biden upplýsir um að verði í starfsliði hans í Hvíta húsinu.
Klain hefur mikla reynslu af því að vinna með Biden en þegar Biden var varaforseti var Klain starfsmannastjóri hans. Biden segir að það sé löng leið fram undan hjá þeim í baráttunni við kórónuveirufaraldinn á sama tíma og græða þurfi sár sundraðrar þjóðar.
Að sögn Biden eru reynsla Klain og hæfileikar hans í mannlegum samskiptum mikilvægir mannkostir fyrir starfsmannastjóra Hvíta hússins á sama tíma og þjóðin stendur frammi fyrir miklum vanda og tengja þurfi sundraða þjóð saman að nýju.
Biden greindi frá þessu eftir að hafa sótt minningarreit um hermenn sem börðust í Kóreu-stríðinu í Fíladelfíu í gær.
Trump fór í hermannagrafreitinn í Arlington í Virginíu til þess að votta föllnum hermönnum virðingu sína, en þeirra er minnst víða um heim á þessum degi, 11. nóvember, vopnahlésdeginum frá fyrri heimsstyrjöldinni. Þetta er í fyrsta skipti sem hann kemur fram opinberlega eftir að hann tapaði í forsetakosningunum 3. nóvember.
Trump hefur ekki enn ávarpað þjóð sína frá því fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því að Biden hefði sigrað í kosningunum. Hann hefur aftur á móti verið ötull við að setja inn færslur á Twitter. Hann sendi einnig frá sér skriflega yfirlýsingu í gær vegna vopnahlésdagsins. Trump hefur heldur ekki haft samband við Biden og óskað honum til hamingju líkt og hefð er fyrir að fráfarandi forseti geri.
Klain, sem er 59 ára gamall, er lögfræðingur frá Harvard og hefur starfað lengi með Demókrataflokknum. Hann var starfsmannastjóri tveggja varaforseta, Al Gore, 1995-1999, og Joe Biden, 2009-2011. Hann starfaði einnig fyrir Barack Obama í tengslum við ebólu-faraldurinn. Í byrjun þessa árs kom hann til liðs við framboð Bidens.
Þegar Al Gore tapaði fyrir George W. Bush í forsetakosningunum árið 2000 var Klain einn helsti aðstoðarmaður hans.