Trump með forskot á tilnefningu 2024

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Fréttastofa CNN telur ólíklegt að einhver geti haldið Donald Trump Bandaríkjaforseta frá tilnefningu Repúblikana í næstu forsetakosningum sem fara fram árið 2024, ef hann kýs að sækjast eftir henni. Trump hefur enn ekki viðurkennt ósigur í forsetakosningum þar vestra en er nú þegar farinn að horfa til þess að bjóða sig aftur fram árið 2024, að því er heimildarmenn Axois og Washington Post hafa tjáð miðlunum. 

Ákvörðun Trumps um að styðja Ronnu McDaniel opinberlega til þess að taka að sér enn eitt kjörtímabilið sem formaður landsnefndar repúblikana sendir skýr skilaboð um að forsetinn ætli sér ekki að sleppa tökunum á Repúblikanaflokknum í bráð, að sögn fréttastofu CNN sem telur forsetann vera með forskot á aðra hvað tilnefninguna varðar. Þá segir í frétt CNN að mjög ólíklegt sé að einhver geti haldið Trump frá tilnefningu repúblikana eftir fjögur ár ef hann vill hana. 

Ástæðan fyrir því er sú að Trump er ekki bara ráðandi afl í flokknum akkúrat núna heldur er hann eina andlit flokksins vegna fjögurra ára kosningaherferðar hans sem var, að sögn CNN, hönnuð til þess að uppræta allar gagnrýnar raddir. 

Jafnvel hærri kjörsókn en 1908

Í tölum yfir kjörsókn, sem Washington Post birtir og uppfærði síðast í dag, sést bersýnilega að kjörsókn í bandarískum forsetakosningum hefur ekki verið meiri í rúm 100 ár. Mest var kjörsóknin árið 1908 þegar hún var 65,7% en miðað við talin atkvæði var kjörsókn í kosningunum í ár 63,9% og gera spár ráð fyrir því að hún verði jafnvel hærri eða 66,5%, miðað við þann fjölda atkvæða sem á eftir að telja.

Síðast var kjörsókn verulega há, eða 61,6%, árið 2008 þegar Barack Obama sigraði John McCain og þar áður árið 1960 þegar John F. Kennedy vann Richard Nixon. Þá var kjörsókn 63,8%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert