Sagði tímann leiða úrslitin í ljós

Donald Trump við Hvíta húsið í kvöld.
Donald Trump við Hvíta húsið í kvöld. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti komst nálægt því að viðurkenna tap í forsetakosningunum 3. nóvember á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld. Trump sagði að „tíminn myndi leiða úrslitin í ljós“.

Trump, sem hefur ekki viðurkennt ósigur í kosningunum gegn Joe Biden, ræddi við fréttamenn í Rósagarði Hvíta hússins um væntanleg bóluefni gegn kórónuveirunni.

„Það verður ekki útgöngubann. Þessi stjórn mun ekki boða það,“ sagði Trump og hélt áfram:

„Vonandi, hvað sem gerist í framtíðinni og hvaða stjórn verður mun tíminn leiða í ljós, en ég get fullvissað ykkur um að þessi stjórn boðar ekki útgöngubann.“

Forsetinn sagði Bandaríkjastjórn þegar hafa fjár­fest í hundruðum millj­óna skammta af bólu­efni Pfizers gegn kór­ónu­veirunni. Því yrði dreift í öllum ríkjum, nema New York, en Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hefur látið í ljós efasemdir með hvernig stjórnvöld hyggjast dreifa bóluefninu.

Trump svaraði ekki spurningum fréttamanna í kvöld sem heyrðust spyrja út í tómið hvort forsetinn viðurkenndi ósigur sinn í kosningunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert