Donald Trump Bandaríkjaforseti virtist fyrr í dag hafa viðurkennt sigur Joes Bidens í forsetakosningunum vestanhafs. Sagði hann Biden hafa sigrað í kosningunum á grundvelli kosningasvindls.
„Hann vann af því að kosningunum var hagrætt. ENGIR SKOÐUNARAÐILAR leyfðir, atkvæði talin af fyrirtæki í eigu vinstri öfgasinna, Dominion, með slæmt orðspor og lélegan búnað sem stóðst ekki einu sinni kröfur í Texas (þar sem ég vann stórt!), falskir og hljóðir fréttamiðlar og meira!“ skrifaði forsetinn á Twitter í dag.
He won because the Election was Rigged. NO VOTE WATCHERS OR OBSERVERS allowed, vote tabulated by a Radical Left privately owned company, Dominion, with a bad reputation & bum equipment that couldn’t even qualify for Texas (which I won by a lot!), the Fake & Silent Media, & more! https://t.co/Exb3C1mAPg
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 15, 2020
Ekkert lát virðist vera á ósönnuðum staðhæfingum Trumps um meint kosningasvindl en þetta virtist vera í fyrsta sinn sem Trump viðurkenndi berum orðum að Biden hefði haft betur í kosningunum sem fram fóru 3. nóvember, en sigur Bidens varð vís laugardaginn 7. nóvember eftir því sem helstu fjölmiðlar vestanhafs spáðu.
Í öðru tísti síðar útskýrði Trump hins vegar mál sitt. Sagðist hann gefa ekkert eftir.
„Hann vann aðeins í augum FALSFRÉTTAMIÐLA. Ég gef EKKERT eftir! Það er löng leið framundan. Þetta voru HAGRÆDDAR KOSNINGAR,“ sagði forsetinn.
He only won in the eyes of the FAKE NEWS MEDIA. I concede NOTHING! We have a long way to go. This was a RIGGED ELECTION!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 15, 2020
Fréttin hefur verið uppfærð.