Slagsmál á samkomu til stuðnings Trump

Meira en 10 þúsund stuðningsmenn Donalds Trumps komu saman um helgina í Washington-borg til stuðnings yfirlýsingum forsetans um meint kosningasvindl.

Samkoman var að mestu friðsæl til að byrja með, að því er kemur fram í frétt BBC, en þó voru um 20 manns handteknir og nokkuð var um óeirðir og slagsmál aðfaranótt sunnudags. Fjórir voru handteknir fyrir ólöglega meðferð skotvopna og einn vegna árásar á lögreglumann.

Stuðningsmenn forsetans komu saman í höfuðborginni til að sýna Trump …
Stuðningsmenn forsetans komu saman í höfuðborginni til að sýna Trump stuðning. AFP

Forsetinn lét sig ekki vanta, en bílalest hans ók framhjá samkomunni. Trump, sem var á leiðinni í golf á velli sínum í Virginíu, brosti og veifaði út um glugga bifreiðarinnar við mikinn fögnuð viðstaddra.

Öfgahægrisamtökin Proud Boys létu einnig sjá sig, sumir hverjir klæddir skotheldum vestum og hjálmum.

Trump hefur ekki enn játað ósigur sinn í forsetakosningunum sem fóru fram 3. nóvember. Fyrr í dag tísti forsetinn að Joe Biden hefði unnið kosningarnar á grundvelli kosningasvindls, en það var í fyrsta skipti sem Trump virtist viðurkenna að Biden hefði í raun og veru sigrað í kosningunum. Hann dró þó ummælin til baka skömmu síðar.

Nokkuð var um óeirðir og slagsmál þegar leið á samkomuna.
Nokkuð var um óeirðir og slagsmál þegar leið á samkomuna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert