Hert samkomubann tekur gildi í Svíþjóð 24. nóvember. Frá og með þeim degi mega aðeins átta manns koma saman þar í landi. Frá þessu greindi Stefan Löfven forsætisráðherra á blaðamannafundi nú fyrir skemmstu. Bannið gildir í fjórar vikur hið minnsta.
Formlega gildir bannið aðeins á þeim viðburðum sem leyfi þarf fyrir: íþrótta- og menningarviðburðum, fyrirlestrum, tónleikum og mótmælum, en ekki á vinnustöðum, í verslunum, bókasöfnum, skólum og öðrum opinberum byggingum.
Forsætisráðherrann var þungur á brún þegar hann færði landsmönnum tíðindin. Hann talaði beint til áhlýðenda: „Við lifum á erfiðum tímum. Þetta mun verða verra. Sýndu ábyrgð,“ sagði hann og endurtók síðan til að sýna að honum væri alvara.
Samkomubann í Svíþjóð hefur hingað til miðast við 50 manns. Löfven sagði að ríkisstjórninni væri ljóst að hér væri á ferð fordæmalaust inngrip í daglegt líf Svía og það væru augljós skilaboð til landsmanna um stöðuna. „Þetta er nýja normið. Ekki fara í líkamsrækt. Ekki fara á bókasafnið. Ekki halda veislur. Ekki fara í matarboð,“ sagði Löfven.
„Og ef einhver hugsar „Fínt, ég get haldið matarboð fyrir átta manns,“ þá er það kolröng ályktun.“
Sóttvarnareglur í Svíþjóð hafa hingað til þótt slakari en víðast hvar annars staðar. Í stað boða og banna hafa heilbrigðisyfirvöld lagt meira upp úr tilmælum til borgaranna. Hefur landið í raun skorið sig svo úr að hugtakið „sænska leiðin“ hefur öðlast merkingu sem fáa hefði grunað fyrir ári.
Skjótt skipast veirur í lofti. Fyrir tveimur mánuðum var nýgengi kórónuveirunnar í Svíþjóð 21,2 — lægra en í flestum Evrópuríkjum — og veltu margir þá fyrir sér hvort sænska leiðin myndi eftir á að hyggja reynast sú best heppnaða. Síðan þá hefur útbreiðslan aukist mjög og er nýgengi kórónuveirunnar í Svíþjóð nú 512, samanborið við 84 á Íslandi. Alls eru 6.164 látnir úr veirunni þar í landi, þar af 42 síðasta sólarhringinn.
Löfven hóf mál sitt á að svara spurningu sem hann sagði marga hafa borið upp: Hvers vegna færir ríkisstjórnin sig frá almennum tilmælum yfir í boð og bönn nú, og af hverju var það ekki gert í vor?
Svaraði hann því til að í vor hefði fólk almennt fylgt tilmælum. „Það þurfti ekki að setja reglur því langflestir virtu fjarlægðarmörk og aflýstu viðburðum sem eru skemmtilegir en þó ekki nauðsynlegir,“ sagði Löfven. Nú væri hins vegar svo komið að fólk virti tilmælin síður og því væri nauðsynlegt að setja strangari reglur.
„Að vissu leyti er það skiljanlegt [að fólk virði tilmælin síður en í vor]. Margir eru þreyttir á ástandinu og ég skil það vel. Það er sorglegt að mega ekki hitta ástvini sína eins og venjulega. En því miður skiptir það engu máli núna. Við verðum að gera það sem þarf til að takmarka útbreiðslu veirunnar. Kórónuveiran tekur því miður ekkert tillit til tilfinninga okkar,“ sagði Löfven.
Undir þetta tók Mikael Damberg innanríkisráðherra. „Allt of margir hafa látið eins og hættan sé liðin hjá. Næturklúbbar voru opnaðir að nýju og fólk fór að bjóða í heimapartí. Það gengur ekki.“
Þrátt fyrir að reglur verði nú hertar, verður enn treyst á dómgreind fólks að miklu leyti. Verslanir og verslunarmiðstöðvr eru, sem fyrr segir, ekki háðar fjöldatakmörkunum.
Veitingastaðir og barir eru opnir, en þó með þeim takmörkunum að ekki má selja áfengi eftir klukkan 22.
Líkamsræktarstöðvar eru enn opnar, þrátt fyrir eindregna hvatningu forsætisráðherrans um að fólk noti þær ekki.
Fólk er ekki skikkað í sóttkví, en fullorðnir ættingjar smitaðra eru beðnir um að halda sig heima í eina viku.
Einkasamkvæmi fleiri en átta manna eru heimil þótt fólki sé eindregið ráðið frá þeim.
Þá eru engar aðgerðir á landamærum Svíþjóðar og engin grímuskylda fyrir almenna borgara.
Fréttin var upphaflega birt með fyrirsögninni „Sænska leiðin kvödd“. Að betur íhuguðu máli er hún dregin til baka, enda ekki óumdeild.