Starfsmenn í indverskum verksmiðjum sem framleiða fyrir þekktar smásölukeðjur eins og Marks og Spencer, Tesco og Sainsbury's og tískuvörufyrirtækið Ralph Lauren lýsa því í viðtali við BBC hvernig þeim er þrælað út fyrir smánarlaun.
Konur sem vinna fyrir birgja Ralph Lauren lýsa því í umfjöllun BBC hvernig þær hafa verið þvingaðar til að vinna alla nóttina við að klára pantanir og stundum neyðist þær til þess að leggjast til svefns á verksmiðjugólfinu.
„Við erum neyddar til að vinna stöðugt, oft yfir nóttina, þar sem við förum að sofa klukkan 3 og erum vaknaðar að nýju klukkan 5. Þá bíður okkar heill vinnudagur,“ segir ein þeirra. „Yfirmönnum okkar er nákvæmlega sama. Það eina sem skiptir máli er framleiðslan,“ bætir hún við.
BBC birtir ekki nöfn þeirra sem samþykktu að koma í viðtal, né heldur verksmiðjanna, til að vernda starfsmennina.
Starfsmenn sem vinna fyrir bresku matvörukeðjurnar segja að starfssystkini þeirra í Bretlandi búi við allt aðrar aðstæður. Á Indlandi séu aðstæður eftirfarandi: „Við fáum ekki klósettpásur, við fáum ekki vatnspásur á vaktinni. Við fáum varla að borða hádegismat,“ segir ein þeirra.
Önnur segir að þau fái ekki að fara heim fyrr en öllum verkefnum er lokið og stöðugt sé verið að bæta á þau verkefnum. Þau þurfi því að vinna langt fram eftir og ef einhver mótmælir er viðkomandi hótað brottrekstri.
BBC hafði samband við erlendu fyrirtækin og forsvarsmenn þeirra hafa allir heitið því að rannsaka málið enda sé þetta á skjön við starfsreglur fyrirtækjanna. Konurnar sem BBC ræddi við starfa allar í textílverksmiðjum í Suður-Indlandi. Samtökin Action Aid sem starfa með konum á þessum slóðum segja að ítrekað hafi komið á borð þeirra ásakanir um að konurnar séu neyddar til að vinna langan vinnudag, þær þurfi að þola móðganir og vinnuaðstæður séu almennt slæmar.
Launin sem konurnar fá eru allt niður í tæpar 500 krónur á dag á sama tíma og þær framleiða vörur sem eru síðan seldar fyrir tugi þúsunda. Yfir 40% kvennanna eru með 3.600-8.900 krónur í laun á mánuði.