Þrátt fyrir að sérfræðingar séu á einu máli um að nánast engar líkur séu á því að málarekstur Donalds Trumps fráfarandi forseta Bandaríkjanna og lögmanna hans komi til með að hafa áhrif á niðurstöðu bandarísku forsetakosninganna virðist málareksturinn ekki af baki dottinn. Enn eiga dómstólar eftir að taka nokkur mál fyrir.
Í heild hafa verið höfðuð um 30 dómsmál auk þess sem fjöldi athugasemda um framkvæmd kosninganna hafa verið gerðar. Þrátt fyrir að mörgum þeirra hafi þegar verið vísað frá eru enn mál sem eftir á að útkljá í þeim ríkjum þar sem munurinn reyndist hvað minnstur í kosningunum.
Það er í Arizona, Georgíu, Michigan, Nevada, Pennsylvanía og Wisconsin.
Í Arizona eru repúblikanar að reyna að hindra að kosningaúrslitin fái eins konar lokavottun í fjölmennustu sýslu ríkisins, Maricopa. Vill framboð Trumps að dómstólar taki fyrst afstöðu til kröfu framboðsins um að ný handtalning atkvæða fari fram. Þegar hefur farið fram skoðun á áreiðanleika atkvæða. Ekki komu fram neinar vísbendingar um misræmi í þeirri skoðun.
Dómstóll hefur þegar vísað frá öðru máli sem lögmenn Trump höfðuðu í ríkinu.
Í Georgíu hafa repúblikanar höfðað mál sem byggt er á því að kröfum um meðhöndlun utankjörfundaratkvæða hafi ekki verið sinnt. Þannig hafi ekki verið farið eftir ströngustu reglum um yfirferð undirskrifta í póstkosningunum.
Á þriðjudag mun dómstóll taka afstöðu til þess hvort krafa repúblikana um bíða með lokavottun kosninganna fái efnislega meðferð eða hvort málinu verði vísað frá.
Í Michigan hefur því verið haldið fram af repúblikunum að kosningafulltrúar ríkisins hafi leyft „svindli“ að viðgangast í talningu. Í framhaldinu var einnig lögð fram lögsókn sem byggði á því að bíða með að votta kosningar þar til búið væri að rannsaka þessar ásakanir.
Dómstóll í Detroit hefur þegar vísað málsóknum frá með svipuðum áskökunum. Ríkisdómstóll er hins vegar ekki búinn að taka afstöðu til þess hvort málin fái efnislega meðferð eða verði vísað frá.
Í Nevada hefur framboð Trumps farið fram á að kosningarnar verði ógildar í heild sinni þar sem „ólögleg“ atkvæði hafi verið gefin. Einnig að skanni sem notaður var til að skanna undirskriftir kjörseðla hafi ekki mætt kröfum ríkisins.
Dómstóll hefur ekki tekið afstöðu til málsóknanna.
Í Pennsylvaníu heldur framboð Trumps því fram að kjósendum hafi verið heimilt að laga kjörseðla sem bárust með utankjörfundaratkvæðum eftir að atkvæði voru greidd. Öðrum kosti hefðu kjörseðlarnir verið dæmdir ógildir. Þau atkvæði sem málið snýst um eru sögð langt frá þeim 80 þúsund atkvæða fjölda sem munurinn á Biden og Trump reyndist að lokum.
Rudy Giuliani, lögmaður Trump tók málið að sér þegar aðrir lögmenn vísuðu því frá sér og flutti fyrir dómstólum. Er þetta í fysta skipti sem Giuliani flytur mál síðan 1990. Í málflutningi sínum, sem fram fór í dag, fór Giuliani mikinn og setti fram samsæriskenningu um að demókratar hafi stolið kosningunum. Ekki hefur fallið dómur í málinu.
Í Wisconsin hefur framboð Trump beðið um endurtalningu í Milwaukee og Madison sem eru sýslur þar sem fylgi demókrata hefur alla jafna reynst mikið. Er því haldið fram af mönnum Trumps að utankjörfundaratkvæðum hafi verið breytt og kosningafulltrúar hafi ekki farið eftir kosningalögum. Endurtalningin hefst á morgun en kosningafulltrúar segja ekkert styðja ásakanirnar.